Leipzig. Ný mið og hindranir við Gardavatn

Það var æsileg keyrslan i dag frá Fiattone og alla leið til gömlu, austur-þýsku borgarinnar Leipzig.  14 tímar að baki undir stýri og síðustu tvö hundruð kílómetrana var ég alveg uppgefinn og gat ekki annað en keyrt ansi greitt til að flýta mér að ná í mark. Þriggja tíma umferðarteppa við Gardavatn í morgun dró úr mér tennurnar. En nú ligg ég inni á vegahóteli og er búinn að stilla vekjaraklukkuna svo ég vakni nógu snemma til að ná ferjunni í Rostock.

Dagarnir í Fiattone eru að baki, frábær tími eins og alltaf í þessu fallega húsi, í fallegri náttúru og ekki skemmdi fyrir að fá gott fólk í heimsókn; Lars og Piu og Palla og Nönnu,

Í gær þegar ég stóð í útieldhúsinu og var að bauka við matargerð heyrði ég að síminn hans Palla hringdi og ég heyrði í sveitaþögninni að rödd Bergsveins Birgissonar, rithöfundarins ómaði frá símtækinu hans Palla. Þeir félagar töluðu saman í hálfum hljóðum um vínneyslu í sumarfríum, notkun réttrar ólífuolíu á viðeigandi mat og svo þurfti Skáldið að heyra um framgang glóðvolgs handrits síns. Mér varð hugsað til þess að ekki fyrir svo mörgum árum hefði þetta símtal verið til mín, ekki Palla. Þótt ég hefði mjög gjarnan viljað spjalla við Bergsvein í gær, hann er alltaf skemmtilegur og áhugaverður, var ég feginn að vera laus úr hlutverki Bjartsútgefanda. Gott að ég sigli nú á allt öðrum miðum.

Sumardagarnir hafa liðið hratt. Svo hratt að það hrannast upp hjá mér ósvöruð bréf. Ég vonast til að svara fólki sem hefur skrifað mér þegar ég kem aftur heim.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.