Espergærde. Dauðaþögn

„Ertu dauður? Nei, það þýðir víst ekki að spyrja að því. Þú mundir ekki svara ef þú lægir steindauður einhvers staðar. En ég hef ekki séð neinar færslur á Kaktus síðustu daga … Hvað er í gangi?“
„Það er langt síðan þögnin hefur skrifað Kaktusinn dag eftir dag.“
„Ég vona að það sé allt í lagi með þig. Það er dauðaþögn á Kaktus!“

Það eru sem sagt nokkrir sem hafa furðað sig á þeirri þögn sem hvílt hefur yfir  Kaktusdagbókinni undanfarna daga eða allt síða ég náði aftur heim til Espergærde eftir langan ökutúr alla leið frá Fiattone, eftir þjóðvegum Ítalíu, Austurríkis, Þýskalands og heim til Norður-Sjálands í Danmörku. Ástæðan er að mín beið IMG_2326.pngfjölskylduheimsókn þegar ég náði leiðarenda á Søbækvej; húsið var fullt af fólki og einhvern veginn nennti ég ekki að gefa mér tíma til að draga mig í hlé frá börnum og fullorðnum gestum til að skrifa dagbók eins og ég hef gert nánast óslitið síðustu 500 daga.

Nú er kominn hversdagur eftir sumarfrí, gestaheimsóknir og ferðalög og nú er ég  sestur á prikið mitt á lestarstöðinni og reyni að sinna þeim verkefnum sem bíða mín. Í morgun, eftir sex vikna hlé, gekk ég mína vanalegu morgungöngu eftir kyrrlátum götum bæjarins og hingað á skrifstofuna; hitti sama fólkið og venjulega sem ég heilsaði kurteislega.  Morguninn var þó óvenjulegur að því leyti að ég gekk eldsnemma í morgun, (haltur og stífur eftir fótboltaæfingu gærkvöldsins) og áður en ég hafði fengið morgunkaffið mitt, með Sus niður á strönd þar sem hún fékk sér morgunbað í sjónum. Ég hef það hlutverk að halda á handklæðinu fyrir hana því ekki stunda ég sjóböð. Morgunninn í morgun var fagur eins og aðrir morgnar. Sólin skreið upp heiðan himinninn og speglaðist í rennisléttu Eyrarsundinu. Handan sundsins sá maður að sama sól skein líka á Svíþjóð. Og úti á hafinu stefndu litlu fiskibátarnir að fiskimiðunum við eyjuna Ven.

Ég sit semsagt á mínu priki og er enn sprellifandi.

ps. Keypti mér fótboltaskó í gær. Alltaf hugsa ég að nú hafi ég keypt síðustu fótboltaskó lífsins og þess vegna tók ég mynd af þeim.

IMG_2359

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.