Espergærde. Maður með pottlok

24.500 skrefa dagur að baki. Ég gekk fram og til baka um Espergærde í ýmsum erindagjörðum, mikilvægum. En lengst var gangan út til Louisiana í Humlebæk til að taka á móti Jóni Karli sem þangað kom með rútu ásamt öðrum fræðimönnum,  ráðstefnufólki frá Kaupmannahöfn. Ég ætlaði varla að þekkja Jón Karl þegar hann birtist fyrir götuhorn. Hann hafði höfuðfat á höfðinu og það hef ég ekki séð fyrr. Mér kom sannarlega á óvart að sjá að Jón Karl er farinn að ganga með sixpensara svo hann varð svolítið Tinnalegur í fasi. En það fór honum bara vel. Við gengum síðan saman heim og síðan niður á barinn við höfnina.

Ég verð alltaf bjartsýnn og djarfhuga eftir fund með mínum gamla samstarfsmanni. Við höfum brallað svo margt saman og hann er alltaf með hugann fullan af skemmtilegum vangaveltum.  Kannski gladdist ég óþarflega mikið – að minnsta kosti kom það mér á óvart hvað ég lifnaði við – þegar hann sagði mér að hann hefði lesið eina af þeim þýðingum mínum sem eru komnar út á íslensku og að hann var bara ánægður með tóninn og flæðið í hinum íslenskaða texta. Ég fann hvað þetta hafði mikla þýðingu fyrir mig, að maður sem ég treysti segði að þýðingin væri í lagi; það fór satt að segja um mig gleðistraumur. Svona er maður nú hégómlegur.

Ég hef setið hér á mínu priki í nokkra mánuði og æft mig stíft í að skrifa íslensku á ný eftir nokkuð langt hlé þar sem ég skrifaði nánast bara ensku og dönsku. Eftir að ég ákvað að byrja að halda dagbók hef ég samið texta á hverjum degi, oft hef ég vandað mig mikið við færslurnar en ekki næstum alltaf því er takmörk fyrir því hvað maður getur eytt miklum tíma í þetta dagbókarpár. Ég finn líka vel að ég á orðið auðveldara með að skrifa. Jón Karl spurði mig hvort ég geti ekki bara hætt að halda Kaktusnum úti þar sem ég þýddi núorðið á hverjum degi. Þetta er svo sem rétt athugað hjá honum að ég þarf ekki lengur Kaktusinn til að æfa mig í skrif-íslensku.  En nú finn ég að Kaktusinn er mér mikilvægur, ég held upp á hann, þykir skemmtilegt að færa inn í dagbókina og mér þykir gaman að þeim viðbrögðum sem maður fær stundum frá lesendum. Það heillar mig líka að halda skrá um líf sitt á þennan hátt.

Mér kom töluvert á óvart fréttin í Morgunblaðinu í morgun um að Storytell hefði samið við Potter-fólkið um að lesa inn Harry Potter-bækurnar til hljóðbókaútgáfu á íslensku. Ég hafði fengið þessa sömu hugmynd fyrir nokkrum mánuðum og hafði ætlað mér að tala við Benedikt Erlingsson um að lesa Potter-bækurnar fyrir mig svo ég gæti gefið þær út. En nú er sem sagt Storytell búið að hrinda hugmyndinni í framkvæmd. Stórkostlegt. Ég er glaður. Það er í mínum huga lífsnauðsynlegt að Harry Potter-bækurnar séu til í góðum upplestri á íslensku. Til hamingju Stoyrtell. En samtímis furða ég mig á því að Bjartur skuli ekki hafa drifið í að gefa þessar hljóðbækur út þegar hljóðbókaútgáfa er orðin svo mikilvægur hluti af útgáfu forlaganna og þegar forlagið hefur réttinn fyrir mikilvægustu unglingabók síðari tíma. Ég held bara að Bjartur leggi ekki alveg nógu mikla rækt við þessa undirstöðugrein bókaútgáfu sem barna- og unglingabækur eru.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.