Espergærde. Höllin í skóginum og yfirvofandi dauði bókaútgáfu.

Einn af mínum gömlu þýðendum hér í Danmörku, Jakob Levinsen, bauð okkur Sus í hádegismat í gær. Hann er fluttur í höll, gamla 16 aldarhöll, sem stendur rétt utan við Køge suðurvestur af Kaupmannahöfn. Valløhöll hefur í áratugi verið aðsetur svokallaðra Stiftsdame, en það eru ógiftar aðalskonur (í 9 ættliði hið minnsta). Nú fer slíkum konum fækkandi, það er segja ógiftum aðalskonum, og því ákvað stjórn hallarinnar að opna höllina fyrir nýjum leigjendum. Í höllinni eru 8 stórar, glæsilegar, nýuppgerðar íbúðir. Höllin, eins og alvöru halla er auðvitað umgirt síki þar sem svanafjölskylda, svanapabbi, svanamamma og 6 ljótir svanaungar synda í röð eftir síkisrennunni. Sjálf höllin stendur langt upp í sveit þar sem stór almenningsgarður og víðfeðmur nytjaskógur ramma inn hallarstæðið.

Fyrir skömmu losnuðu tveir hallaríbúðir þegar 2 aldraðar aðalsdömur létust. Meira en 200 fjölskyldur sóttu um að fá að leigja íbúðirnar. Skilyrði fyrir búsetu eru að maður þarf að vera eldri en 50 ára, barnlaus, og hafa áhuga á menningu og sögu. Levinsen, sem er manna gáfaðastur, og kona hans læknirinn og rithöfundurinn Anne-Marie Vadsø, (líka mikil gáfukona) hrepptu hnossið og voru valin til að búa í höllinni. (Húsaleigan er ekki gefins eða um 400.000 á mánuði). Levinsen er svo gáfaður að maður heyrir gáfurnar um leið og hann bíður góðan daginn. Allt sem hann lætur út úr sér er annað hvort gáfulegt, snjallt, áhugavert eða fyndið. En þrátt fyrir þetta er hann þægilegur í umgengni og manni finnst maður ekkert sérstaklega heimskur, óáhugaverður eða leiðinlegur þótt hann sé svona ofurgáfaður.

Það var tekið konunglega á móti okkur og Levinsen var að undirbúa þriggja rétta hádegisverð þegar við komum. Hann er góður kokkur og mikill áhugamaður um matargerð (og var maturinn auðvitað stórkostlegur). Á meðan Levinsen lagði lokahönd á réttina fylgdi Anne-Maire okkur um höllina. Hún sýndi okkur allar stofurnar sem íbúar hallarinnar hafa sameiginlega, gangana og gestaherbergin. Veggir hallarinnar eru svo þykkir, 1,8 metrar, að nútímasímar drífa ekki í gegnum múrana og því er farsímasambandslaust við höllina. Það er þó hægt að tengja tölvurnar við internet en ekki mögulegt að nota snjallsíma. Þetta er staður til að týna sér í djúpri einbeitingu, eins og Anne-Maire segir.

ps. Ég las í dagblaði í dag að enn minnki velta bókaforlaganna, og verður hún minni ár hvert. Þetta er auðvitað sorgleg þróun að fylgjast með fyrir mig sem áhugamann um líf bókmenntanna. Egill Örn, framkvæmdastjóri Forlagsins telur afnám virðisaukaskatts leiðina til að snúa þessari þróun við. Ég er ekki sammála því og er viss um að skattaafnám hafi engin áhrif á sölu bóka. Dauðinn bíður þeirra sem trúa því að afnám virðisaukaskatts sé bjargreipið. Eina leiðin til að snúa þessari þróun við er að gera bókmenntir áhugaverðar bæði fyrir börn og fullorðna. Útgáfa góðra barnabóka og skemmtileg umfjöllun um bækur er leiðin fram. Fjölmiðlar hafa minnkandi áhuga á að fjalla um bókmenntir og það minnkar áhuga þjóðarinnar á bókmenntum og minnkandi áhugi á bókmenntum hefur letjandi áhrif á fjölmiðla að fjalla um bókmenntir. Þetta er skemmtilegur vítahringur. Íslensku bókaforlögin þurfa sennilega að finna nýjar leiðir til að skemmtileg og áhugaverð umfjöllun um bókmenntir sé aðgengileg og rati til þeirra sem kunna að lesa. Þannig má örva frjósama og upplyftandi bókaumræðu sem kannski eykur áhuga á bókum hjá lesendum og fjölmiðlum.

Það er nánast hvergi fjallað opinberlega um bókmenntir á íslensku – umfjöllun íslenskra dagblaða er í skötulíki. RUV sýnir þó góða tilburði inn á milli. Leslistinn sem tveir ungir bókmenntamenn halda úti er dæmi um líflegan og kraftmikið áhugastarf sem er ómetanleg lyftistöng fyrir íslenskar bókmenntir og menningu. Vikulega berst fréttabréf frá Leslistanum þar sem bent er á góðar greinar um menningu á vefnum. Þetta er ansi gott framtak. Bókaskápur Ástu S. sem birti fyrir nokkrum mánuðum daglega greinar um bókmenntir og líf bóka var tilraun til að auka bókmenntaumfjöllun en sú vefsíða er því miður hætt í bili. Kannski ættu íslensku bókaforlögin að vinna að því að koma upp og halda lífi í fjörlegum vefsíðum um bækur? Það væri margt vitlausara.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.