Espergærde. Rauði stólinn

Ég las einu sinni viðtal við rithöfund – mér dettur þetta bara allt í einu í hug þegar ég skrifa „rauði stóllinn“. Þetta var viðtal við verðlaunahöfund og ég held að hann hafi unnið Bookerverðlaunin 2017. Man einhver hver það var? Einhver? Réttið upp hönd. Enginn…?  Ókei. En sem sagt í viðtalinu lýsir hann öllum efanum sem sækir á hann við hverja setningu sem hann setur á blað. Til dæmis þessa setningu. „Óli gengur inn í herbergið og sest niður í rauða hægindastólinn.“ Hann les setninguna, hryllir sig og byrjar að strika út „gengur inn í herbergið“ og „niður“ (ekki sest maður upp) og „rauða“ (hvaða máli skiptir liturinn).  Eftir stendur setningin „Óli sest í hægindastólinn.“ Þetta var betra. En af hverju þarf lesandinn að vita að Óli setjist og af hverju í hægindastól? Get ég ekki bara sagt „Óli“? Er það ekki nóg? Það er að minnsta kosti ekki neinu ofaukið. Þetta fannst gamla forlagsstarfsmanninum fyndið.

Mér fannst líka fyndið að hitta mann í morgun sem er svo rómantískur í hugsun og dásamar hið hæga og íhugula. Hann talar alltaf eins og internetið sé bara bóla sem verði ekki til eftir nokkra mánuði, eða að minnsta kosti eins og að allir munu fá leið á internetinu og hætta að nota það í síðasta lagi fyrir næstu áramót. Allt var gott í gamla daga. „Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru því þar eru uppsprettur lífsins,“ sagði hann og strauk grátt yfirvaraskeggið. Ég tók eftir að hann sagði uppspretta í fleirtölu. Þetta er góður kall.

Ég er í töluverðu stuði þessa dagana, eða það finnst mér,  en ég kem mér bara ekki að verki. Allt vex mér í augum. Ég þarf að finna fylgiskjöl fyrir endurskoðandann en ég  bara orka það ekki. Ég þarf að svara nokkrum fyrirspurnum um eitt og annað. Ég hugsa svörin en ég meika ekki að svara.  Ég þarf að senda póst en bréfið liggur enn hérna á borðinu hjá mér! Nú þarf ég að herða upp hugann.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.