Espergærde. Undarlegir hjónabandserfiðleikar

Þessa dagana finn ég ekkert sem mig langar að lesa, ég hef haft sömu bókina fyrir framan mig í nokkra daga án þess að hafa lesið staf í henni. Ég er bara búinn að missa áhugann. Ég virti fyrir mér kápuna á bókinni sem lá opin á borðinu fyrir framan mig og spurði sjálfan mig: Hvers vegna er ég alltaf að lesa? Hvað er það sem ég er að leita eftir með öllum þessum lestri? Ég hef aldrei velt þessu almennilega fyrir mér. Hinni hreinu fegurð? Lausn á gátum lífsins? Nei. Þegar ég les vona ég að rithöfundi takist með skrifum sínum að gera daga  mína dramatískari og áhugaverðari. Stundum  tekst höfundi að töfra frama visku sem lyftir manni upp. Að minnsta kosti um stund. En eitt er víst ég finn ekkert í dag sem mig langar til að lesa.

Ég hitti unga, hressilega konu um daginn sem sagði mér frá undarlegum hjónabandserfiðleikum sínum. Hún hafði byrjað að lesa sex binda ritverk Karl Ove Knausgaards, Min kamp og gersamlega fallið fyrir verkinu. Bækurnar í ritverkinu eru sem sagt sex talsins og hver um sig meira en 5oo síður. Þessi vinkona mín var algerlega heilluð af frásögn Knausgaards. Hún  las og las í 3000 síðna verkinu, og var ekki mönnum sinnandi dögum saman, vikum saman. „Vandinn var sá,“ sagði hún mér, „að ég varð ástfanginn af Knausgaard. Ég gat ekki hugsað um annað en hann og talað um annað en hann og líf hans og bækurnar hans. Maðurinn minn varð gífurlega afbrýðissamur. Stundum lágum við á kvöldin upp í hjónarúmi og ég með Knausgaard í allri sinni þyngd ofan á mér og manninn minn mér við hlið. Ég tók allaf Knausgaard framyfir hann.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég hitti konu sem er heilluð af norska rithöfundinum. Í fyrra fékk ég  amerískan rithöfund í heimsókn. Hún hafði verið boðin á bókmenntahátíðina í Louisianasafninu hér í Danmörku. Meðal annarra gesta á hátíðinni var Karl Ove Knausgaard. Þegar þessi ágæti rithöfundur og gestur minn heyrði að Knausgaard yrði líka á Louisiana varð hún óð og uppvæg. Knausgaard yrði hún að hitta og ég sem forleggjari hennar yrði að sjá til þess að leiðir þeirra mundu liggja saman. Ég sagðist lofa að gera mitt besta.

Næsta dag fórum við af stað upp í Louisiana þar sem gestur minn átti að koma fram til að kynna verk sín. Áður en hún steig á svið vildi hún fara út að reykja. Reykja sígarettu. Eftir stutta reykingarpásu kom hún aftur inn, rjóð í vöngum og með tryllingslegt blik í augunum. „Ég hitti Knausgaard! Hann var úti að reykja. Hann var að reykja sígarettu. En ég missti algerlega áhuga á manninum. Mér fannst hann bæði hafa alltof litlar tennur og ljótar. Ég sá ekki betur en þær væru brúnar.“

ps. Hver er maðurinn á myndinni hér fyrir ofan? Ég varð að minnsta kosti hissa að sjá þennan mann á lestarstöðinni í Espergærde.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.