Espergærde. Hjartað neitar.

Það var víst skipulagður fyrsti jógatími eftir sumarfrí í morgun. Þegar ég vaknaði fann ég að ég var ekki tilbúinn. Ég var bara alls ekki tilbúinn. Hjartað neitaði að fara af stað og því klæddist ég mínum borgaralegu fötum eftir að hafa verið í sturtu í stað þess að fara í föt sem passa betur til jógaiðkunar. Sus, sem hefur verið alla vikuna á Jótlandi að aðstoða foreldra sína en kom í gær, varð aldeilis hissa þegar hún sá að ég var ekki á leið til jóga.

„Hvað! Ætlarðu ekki að mæta í jóga?“
„Nei, sálin er ekki tilbúin til þess.“
„Hvaða afsökun er nú þetta? Þú kemur auðvitað.“
„Nei, ég get það ekki. Hjartað segir nei, og Serpil jógakennari segir að maður eigi að hlusta á hjartað. Hún skilur þetta.“
End of discussion.

Ég á von á kvöldgestum. Enn einn Halinn á ferð í Danmörku. Í þetta sinn er það Maggi Guðmunds og Magga sem koma og borða með okkur. Mér finnst gaman að fá Halaheimsókn. Í fyrradag gisti Kalman hjá okkur. Skemmtilegt.

Ég rifjaði það upp á göngu minni upp á skrifstofu í gær – göngutíminn var ótrúlega langur þar sem akkílesarhællinn á hægri fæti  er svo bólginn eftir fótboltaleik vikunnar – að við Jón Karl höfðum ákveðið að keppa í lausn á ákveðnu verkefni. Ég hafði ekki tekið þessa keppni svo alvarlega fyrr en hann byrjaði að tala um keppnina í síðustu heimsókn sinni hér í Espergærde. Í gær eftir nokkur hlé kíkti ég á stöðu verkefnisins hjá mér og ég fylltist eldmóði. Já, auðvitað verð ég að vinna Jón Karl, hugsaði ég. Síðasta sólarhring hefur vart nokkuð annað komist að í huga mér en hvernig ég fá leyst verkefnið á þann hátt að það tryggi mér sigur, öruggan sigur. Yo!

ps Ég las viðtal við  skáldkonu í gærkvöldi. Ég hef aldrei verið sérstaklega hrifinn af persónunni, en það er annað mál. En hún var spurð úti í orð ítalska rithöfundarins Roberto Saviano sem hefur hvatt listamenn að vera virkari í samfélagsumræðunni. Hann lítur svo á að það sé skylda listamanna að taka þátt í umræðu um samfélagið og vera þannig með til að móta það. Ég skil svo sem ekki afhverju það er svo mikilvægt að akkúrat listamenn séu þátttakendur (þrjú t, flott) í samtali um samfélagið. En sem sagt þessi kona sem var í viðtali sagðist hafa hætt að skrifa blaðagreinar um samfélagsmál árið 2012 því greinarnar hefðu skaðað bóksölu hennar. Nú eftir sex ár þögn hafi hún slegið gegn sem rithöfundur af því fólk leit ekki lengur á hana sem samfélagsrýni. Hún hélt því líka fram að með facebook hefði ritfrelsið verið afnumið. Eða það séu eingöngu fávitar og fífl, kaldlyndir heimskingjar, sem þola allan þann skít sem þeir sem reyna að halda úti vitrænum samræðum á félagsmiðlum kalla yfir sig. Ritfrelsið er því eingöngu fyrir idjóta. Hmm?

Hated because of great qualities.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.