Ég á erfitt með að ganga og Sus segir að ég eigi að hvíla mig og hvíla akkílesarhælinn sem allur er bólginn og ljótur. En ég fór samt út í göngutúr í morgun. Það er laugardagur og ekki skrifstofudagur í dag en af einhverjum ástæðum, sennilega vegna þess að ég er alltaf einhver staðar langt í burtu í hausnum, gekk ég af stað sömu leið og geng vanalega hvern morgun; leiðina upp á skrifstofu. Ég hafði gengið, hálfmeðvitundarlaus, langleiðina upp á skrifstofu þegar ég mætti konunni með hundinn. Hana hef ég ekki hitt í marga mánuði af því að ég hef verið í útlöndum. Hún var glöð að sjá mig. Hún greikkaði sporið þegar hún kom auga á mig og flýtti sér á móti mér með útbreiddan faðm því hún vildi faðma mig. Ég vissi ekki að mín hefði verið svona mikið saknað og ég vissi heldur ekki að við þekktumst svo vel að við heilsuðumst með faðmlögum.
Þetta faðmlag varð til þess að ég vaknaði og sá að ég var á kolvitlausri leið ég hafði ætlað niður á strönd. Svona byrja dagarnir hjá mér.
ps nú hefur duglegi maðurinn spurt hvort ég vilji spila tennis og þótt mér hafi verið skipað að hvíla akkílesarhælinn get ég ekki staðist freistinguna og nú er ég leið út að spila tennis á einni löpp.