Espergærde. Endurtekið efni

Sjá hvað þetta er notalegur morgunmatur úti á palli (sjá myndina að ofan). JyllandsPosten, kaffi og hafragrautur. Þetta finnst mér góð byrjun á morgni.

Ég er enn ekki orðinn svo gamall að ég sé farinn að stunda það að lesa gamlar færslur í dagbókinni minni. En það gerðist þó í dag. Ég fletti upp á því hvað ég hefði verið að skrifa um fyrir akkúrat ári. Og svona hefst færslan:

„Hvað að gerast? Hugsaði ég þegar ég sá frétt um að samdráttur í bóksölu á Íslandi hafi verið 31% frá árinu 2008. Þetta er katastrófa! Þriðjungi færri bækur seldar í ár en 2008. Hvað veldur? Mér er brugðið. Ég sá að Egill Örn hjá Forlaginu kennir hækkun virðisaukaskatts um þetta háa fall bóksölunnar.

Mín tilfinning er að það vanti einhvern sameiginlegan spirrit, sameiginlegan baráttukraft, hjá þeim sem hafa raunverulegan áhuga á að bækur séu lesnar, og trúa því að það gagnist lífinu í hinu litla, íslenska samfélagi að stór hópur hafi áhuga á bókmenntum og þeirri upplyftingu sem bóklestur veitir. Það er ekki oft sem maður greinir brennandi áhuga fyrir því að bóklíf þrífist á Íslandi. Hvorki bókaútgáfurnar á Íslandi, bókabúðirnar, dagblöðin, vefritin sýna í verki að þeim finnst mikilvægt að þjóðin haldi áfram að rækta tunguna og rækta hina mikilvægu listgrein sem bókmenntirnar eru.

Eitt er ég viss um: Bókalaus þjóð er heimsk þjóð.“

Þessi skrif voru sett á blað í tilefni af frétt sem birtist í flestum íslenskum fjölmiðlum fyrir einu ári að bóksala væri á hraðri niðurleið.

Í fyrradag birtust samskonar fréttir (bóksala enn á niðurleið) í sömu fjölmiðlum og enn var talað við sama fólkið og síðast Egil Örn og formann bókaútgefenda OG ÞEIR ENDURAKA SÖMU SVÖR OG Í FYRRA. Bókaútgáfa á Íslandi er á hraðri leið í dauðann og það er enginn sem tekur ábyrgðina eða gerir eitthvað til að snúa þessari þróun við. Það er enginn sem brennur fyrir því að bókalíf þrífist á Íslandi. Sennilega á ég eftir að lesa þessa frétt í ágústmánuði ár hvert þar til engar bækur eru lengur gefnar út á Íslandi. Hvernig getur maður staðið ár eftir ár sem útgefandi og sagt að líf bókaútgáfu sé háð því að virðisaukaskattur á bókum sé afnuminn. (Auðvitað væri það í sjálfu sér ágætt að hann væri afnuminn.)  En heldur einhver í alvöru að bóksala taki kipp vegna þess að kilja sem kostaði 3300 krónur lækkar niður í 3000? Nei, í raun og veru trúir því enginn. Það vita allir að það skiptir litlu máli fyrir þá sem kunna að lesa hvort bók kostar 300 krónum meira eða minna. Það eina sem gæti snúið þessari neikvæðu þróun á sölu bóka við er að auka áhuga á bókmenntum og bóklestri (með aukinni umfjöllun, skemmtilegri umfjöllun um bækur). Þetta hef ég víst sagt nokkrum sinnum.

En ég ætla ekki að þusa meira um þetta. Það er víst sunnudagur og tíminn flýgur (fyrir andartaki var morgun og nú er allt í einu kominn kvöldmatartími). Ég er búinn a keyra Davíð til Nivå þar sem hann tók þátt í sínu fyrsta golfmóti, búinn að spila tennis, búinn að ganga (haltra) langa leið og heilsa upp á kýrnar út á túninu… Nú hef ég valið mér bók sem ég ætla að lesa og ég tek hana fram yfir að horfa á leik Brighton og Manchester United sem nú er sýndur í sjónvarpinu sem ég á.

IMG_9889
Kýrnar á beit

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.