Espergærde. Hamingjan og ánægjan

„Á meðan við eltum hamingjuna flýjum við ánægjuna,“ sagði við mig maður á götuhorni í dag. Í rauninni var þetta ein af fyrstu setningum dagsins sem bárust mér til eyrna og ég var ekki kominn lengra en niður á götuhorn.

Ég mætti hundaeiganda sem ég kannast við og hann  var úti að ganga með hundinn sinn í rigningunni og það var fyrir fótaferðatíma flestra annarra íbúa litla bæjarins sem ég bý í. Ég held ekki að hann hafi verið sérstaklega ánægður með að vera hundaeigandi og kannski var það kveikjan að þessari sérkennilega heimspekilegri kveðju. En hann er líka móralskt þenkjandi þessi maður sem ég mæti oft á morgungöngu með hund og kaffibolla. Hann gengur um í náttfötum undir frakkanum.

Um daginn lagði hann fyrir mig dæmi um hvað honum þykir orka tvímælis. Hann hefur til dæmis efasemdir um að rétt sé að dæma fólk eftir afleiðingum gerða sinna. Hann tók dæmi: „Maður fer til veislu og drekkur sig fullan. Hann ákveður að keyra heim frá veislunni en  á leiðinni keyrir hann niður barn sem deyr. Hann fær harðan dóm. Annar maður fer til veislu og drekkur sig fullan. Hann ákveður að keyra heim frá veislunni. Hann mætir engum á leiðinni og rankar svo við sér næsta morgun í eigin rúmi með timburmenn. Enginn dómur. Þessir tveir menn brutu báðir jafnalvarlega af sér bara annar fékk dóm. Gott að við höfum Guð sem dæmir verk mannanna en hugsar ekki um afleiðingar.“

Svona getur hann malað snemma morguns á milli þess sem hann fær sér sopa af köldu kaffinu í kaffibollanum.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.