Ég er dálítið fúll yfir því að japanski úrvalskrimminn Hinn grunaði hr. X eftir Keigo Higashino er ekki almennilega kominn í gang á hinum íslenska kiljumarkaði. Ég sá að bókin var númer 10 á metsölulista Eymundsson og það er alls ekki nógu gott þegar slíkur eðalkrimmi er settur á markað. Kolbrún Bergþórsdóttir, sem er sennilega sá gagnrýnandi sem almenningur tekur mest mark á, var ansi hrifinn af bókinni. Hún skrifaði um hana í Fréttablaðinu. Ekki kæmi mér á óvart að hún veldi hana sem glæpasögu ársins þegar útgáfuárið verður gert upp. (En hugsa sér að það hefur enginn annar minnst opinberlega á þessa góðu bók.)
Ég er alltaf að gera lista, ég á lista yfir allt, just name it.
Listi yfir það sem hefur horfið og kemur kannski aftur:
- Bros Macrons eftir sigur Frakklands í heimsmeistarakeppninni í fótbolta
- Ryðsveppaplágan sem herjaði á Keflavík í byrjun þessarar aldar
- Nú er horfið norðurland
- Tindátar. Hermenn steyptir úr tini
- Alvöru diskódans
- ÁTVR á Lindargötu og þunnhærði starfsmaður búðarinnar
- Sunsip djús
- Hillary Clinton og hvíta buxnadragtin hennar
- Gamla flugstöðin í Keflavík. Hvað varð af henni?
- Normalbrauð frá bakaranum í Starmýri sem er líka horfinn. Hvort var það normalbrauðið eða bakarinn sem hvarf fyrst?
- Verslunin Víðir sem einu sinni var aðalbúðin í Starmýrinni hefur horfið tvisvar. Nýtt hvarfmet.
- Varðskipið Árvakur sem var alltaf uppáhalds varðskipið mitt af því það var svo lítið. Davíð á móti Golíat í þorskastríðinu.
- Hvert er horfið laufið sem var grænt í gær?
- Uma Thurman. Eða birtist hún aftur með #metoo?
- Tímaritið Nýtt líf og tímaritaforlagið Fróði. Ég var alveg búinn að gleyma því forlagi. Sennilega af því að það er horfið.
ps. Kem til Íslands á morgun og þeir sem ekki vilja verða á vegi mínum haldi sig frá vesturbæ, miðborg og Hvalfirði fram á sunnudagskvöld.
pps. Það eru epli á leið minni til vinnu. Ég tíni mér eitt á hverju morgni.