Reykjavík. Staðsetning kaffivélar í eldhúsi annars lífs.

Ég vaknaði í Hvalfirði í morgun og strax sótti á mig einkennilega sterk hugsun um eldhúsið í Eskihlíðinni þar sem ég átti einu sinni heima og spurningin um hvar kaffivélin hafði verið staðsett. Það er langt síðan ég átti heima í Eskihlíðinni, nærri því í öðru lífi. En ég sá fyrir mér útsýnið úr eldhúsglugganum. Það gat ég vel. Ég sá fyrir mér eldhúsborðið og stofuborðið, ganginn, en ég mundi bara ekki hvar kaffivélin hafði verið.

Sennileg kviknaði þessi hugsun af því að ég fór að hugsa um foreldra mína og hvort ég hafi ekki örugglega munað að gefa þeim kaffi þegar þau komu í heimsókn. Þau komu ekki oft, þau sóttu frekar systur mína heim. Þeim leið meira heima hjá sér hjá henni. En í hugsunum mínum vildi ég vera viss um að ég hefði munað að hella upp á kaffi handa þeim í hinum fátíðu heimsóknum og ég reyndi að sjá fyrir mér innlit þeirra og sjálfan mig bauka yfir kaffivél. Stundum skil ég ekki alveg hvað Íslandsheimsókn gerir við mig.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.