Espergærde. Gestgjafinn

Kominn til baka til heimabæjar míns í Danmörku eftir nokkra daga dvöl í Reykjavík. Ég hafði danskan arkitekt með mér og konu hans og því varð ég að sinna hlutverki gestgjafa á Íslandi og sýna þeim landið mitt og hvað það hefur upp á að bjóða. Það, landið, vakti gleði hjá hinum dönsku gestum, enda skartaði náttúran sínu fegursta í sumarsólinni.

Ég var því ekki eins mikið inn í Reykjavík  og ég hafði gert ráð fyrir og náði því næstum ekki að hitta neinn. Ég rakst þó á Úlfhildi Dagsdóttur á kvöldgöngu. Hana þekkir maður úr langri fjarlægð.

Annars varð ég fyrir töluverðu vonbrigðum þegar ég gekk inn í bókabúð Máls og menningar á Laugavegi 18. Einu sinni var þetta aðalbókabúð landsins en nú hafa mörg vötn runnið til sjávar.

En það var ekki bara bókabúðin sjálf og niðurníðsla hennar sem vakti áhyggjur mínar. Ég er eins og alvöru höfundur, ráfa um bókabúðir, sniglast í kringum bækurnar, geng eins og köttur í kringum heitan graut til að sjá hvernig mínu eigin höfundarverki er komið fyrir í bókabúðinni og verð síðan niðurbrotinn (næstum) sjái ég ekki eigin ritsmíðar á besta stað. Í þessu tilfelli komst ég að því með hjálp ungs búðarmanns að bókabúðin á Laugavegi 18 hafði aldrei fengið eintök af Hinum grunaði hr. X, sem ég þýddi fyrir Bjart. Ekkert eintak var í búðinni og hefur aldrei verið. Hmm.

ps. Ég hefndi mín á bókaheiminum þegar ég kom inn í bóksöluna í Keflavíkurflugvelli í morgun. Þar endurraðaði ég metsölulistanum sem stillt er upp á besta stað í búðinni og flutti Hinn grunaða hr. X úr ósýnilegri stæðu á vonlausu borði yfir í metsölustæðuna. Bókinni staflaði ég í sæti númer 2 (innbyggð hógværð) á metsölulista búðarinnar.

 

IMG_2475
Hinn grunaði hr. X er í öðru sæti, eða þannig.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.