Espergærde. Erótíska skáldkonan heldur námskeið

Það er sagt að Hemingway hafi stúderað skrif Knud Hamsuns og reynt bæði að líkja eftir hvernig Hamsun byggði upp frásagnir en ekki síður hvernig Hamsun byggði upp setningar sínar. Annar höfundur, hinn danski Kim Leine hefur oft lýst því í blaðaviðtölum hvernig hann hafi fundið fram bók eftir Hamsun tekið fyrstu setningu bókarinnar og sjálfur skrifað nákvæmlega eins setningu. Síðan tók hann næstu setningu Hamsun og skrifað sjálfur samskonar setningu og svo koll af kolli. Á þennan hátt æfði Kim Leine sig að skrifa. Árangurinn varð aldeilis frábær eins og sjá má í bókinni Spámennirnir í Botleysufirði sem Jón Hallur Stefánsson hefur íslenskað svo listilega vel. (Sagt er að Sjálfstætt fólk sé svar við Gróðri jarðar eftir Knud Hamsun. Eitthvað hefur norska skáldið kunnað.)

Ég segi frá þessu hér því ég hitti erótísku skáldkonuna sem býr í sama bæ og ég. Erótíska skáldkonan er annar af tveimur rithöfundum bæjarins og hún er þekkt fyrir bók sem hún gaf út fyrir nokkrum árum og inniheldur safn erótískra smásagna. Ég mætti henni á göngu á götunni rétt við húsið mitt í gær og ég velti því satt að segja fyrir mér hvort hún hefði verið á leiðinni að heimsækja mig.
„Hæ,“ hrópaði hún þegar hún sá mig. „Ég er með svolítið sem mig langar að sýna þér.“
„Nú, en gaman,“ sagði ég því ég er kurteis maður.
„Ég ætla að halda námskeið.“
„Já … námskeið …“ Ég hikaði því ég þorði varla að spyrja hvert yrði viðfangsefni námskeiðsins.
„Ég er með uppkast að bæklingi sem mig langaði að sýna þér.“ Hún byrjaði að grafa í svörtu, belgmiklu töskunni sinni. Hún grúfði sig niður yfir hliðartöskuna svo ljósu krullulokkarnir ultu niður af höfðinu og héngu eins og gardína fyrir augunum á henni. „Æ, ég finn aldrei neitt í þessari helvítis tösku,“ sagði hún reiðilega og reyndi að halda hárinu frá augunum. „Jú, hérna er þetta,“ sagði hún svo og dró upp bleika plastmöppu.

Það kom í ljós að hún hafði gert uppkast að bæklingi þar sem hún kynnti námskeið í skapandi skrifum og hana dreymdi um að hún gæti fyllt námskeiðið (8 manns) bara með íbúum Espergærde. Ég tók eftir því að á námsskránni hjá henni var lestur á tveimur bókum Knud Hamsun og æfingar í að skrifa á sama hátt og norska skáldið.

Þetta leit allt vel út og ég hældi henni bæði fyrir bæklinginn og námsuppbygginguna.
„Viltu ekki vera með?“ spurði hún og virti mig brosandi fyrir sér.
„Nei takk. Ég læt mér nægja að þýða og svo er þetta á dönsku. Ég gæti aldrei skrifað neitt af viti á dönsku.“

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.