Þetta er einn af þeim dögum sem ég vakna með þá tilfinningu að eitthvað stórkostlegt sé í vændum. Stórtíðindi, góð, liggja í loftinu. Að vísu var nóttin ekki sérlega uppörvandi. Ég hafði borðað of mikið í gær, of mikið kjöt og mér var illt í maganum og átti erfitt með að sofa. Maginn má ekki við miklu og ég hef ákveðið að taka hlé frá kjötáti í 14 daga til að sjá hvort ég verði betri í maganum. Auk þess hefur minn gáfaði köttur fundið leið upp á svalir um nætur til að kalla á mat. Hann klifrar upp í tré, stekkur upp á þak og þaðan hoppar hann upp á svalir, tekur sér stöðu fyrir utan svaladyrnar sem liggja inn í svefnherbergi og þar mjálmar hann klukkan fimm um morgun.
Í gær sló ég gras; gerði brautir í grasflötinn því nú vil ég rækta villigrös. Túnbletturinn verður ekki sleginn og nú fá blóm og jurtir að vaxa frjálst utan hinna fínu slóða sem ég hef slegið. (sjá mynd) Þetta geri ég til heiðurs býflugunum sem þrá villigróður. Ég held að maður geti séð þessa stíga alveg frá tunglinu.

Í gær kláraða ég mikinn doðrant, 650 síðna bók eftir danskan rithöfund, Søren Svendstrup. Þetta er mikil metsölubók hér í Danmörku og ég velti fyrir mér hvort hún hentaði hinum íslenska bókamarkaði. Sennilega gerir hún það, þetta er ágætis saga en 650 síður er of langur texti til þýðingar.
Enn varð ég að afþakka boð um tennisleik þar sem ég geng haltur um með bólginn ökkla. Meira hvað það er skrýtið hvað þetta tekur langan tíma að verða óhaltur aftur. Í þrjár vikur hef ég haltrað. Grrrr.