Espergærde. Yfirsjónir annarra

Þetta er dagurinn sem ég flýg til Parísar. Klukkan fimm síðdegis, eða sautjánhundruð eins og flugmaðurinn mundi væntanlega velja að kalla tímann, mun flugvél SAS flugfélagsins hefja sig á loft frá Kastrupflugvelli og taka stefnuna í suð-suð-vestur í átt til höfuðborgar Frakklands. Þótt það virðist undarlegt þá sveima fiðrildi um maganum á mér. Ég er pínulítið taugaspenntur því ég legg mikið í þessa ferð og vænti þess að afköstin verði góð í vikudvöl í Parísarborg.

Ég byrjaði að pakka farangri í gær, (það sýnir kannski hvað ég er taugaspenntur) fann lykilinn að Batmanníbúðinni, setti vegabréfið mitt í hliðartöskuna sem annars er full af bókum. Ég hef þegar valið þrjár bækur sem ég ætla að hafa með og þeim hef ég fyrir löngu komið haganlega fyrir í svörtu hliðartöskunni minni. Annars liggur þar líka handrit að bók sem ég er að þýða því ég hafði hugsað mér að halda áfram þýðingarvinnunni þegar ég tek frí frá Parísarverkefninu Fellibylurinn Betsy.

Ég er enn á ný byrjaður að hlusta á útvarpsþáttinn Lestina á göngu minni til  vinnu. Mér finnst betra þegar Eiríkur situr við hljóðnemann og nú er hann kominn aftur eftir frí. En ég er farinn að spila þáttinn á 2x hraða, sem sagt á tvöföldum hraða, svo allir tala ansi hratt í hljóðnemann og þáttur sem er 40 mínútur í flutningi tekur bara 20 mínútur í hlustun. Þetta er kannski dæmigert fyrir tilveru mína þessa daganna. Mér finnst tíminn vera að renna út, sandurinn streymir hratt niður úr tímaglasinu og ég þarf að ná svo mörgu.

Í gær var bankað upp á hjá mér þar sem ég sat hér á skrifstofunni, einbeittur yfir verkefnum dagsins. Ég opnaði dyrnar og fyrir utan stóð Sebastian, kunningi minn héðan úr bænum. Hann hafði misst af lestinni til Kaupmannahafnar og vildi nota tímann á meðan hann beið eftir næstu lest til að fá sér kaffisopa með mér. Sebastian er hávaxinn og grannur, og hann er alvarlegur maður. Hann var á leið til Norður-Svíþjóðar  þar sem hann árlega tekur þátt í námskeiði sem á að gera hann að betri manni. Námskeiðið kennir fyrirgefningu, Sebastian fer til Svíþjóðar til að læra að fyrirgefa. Ég veit ekki hvað það er sem hann vill fyrirgefa því ég spurði hann ekki að því. En hann tekur árlega þátt í námskeiði sem á að efla fyrirgefningarstyrk hans. Ég held að margir hefðu gott af því að efla þessa hæfni. Líka ég hefði gott af því að fá leiðbeiningar í þessum efnum, þá yrði ég fúsari til að fyrirgefa það sem ég lít á sem yfirsjónir annarra.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.