París. Kvenmannsnafnið Vagina

Það eru fáir gestir á hipsterakaffihúsinu mínu hér í París í morgunsárið; við erum bara þrjú, ég, japönsk fínleg stúlka með svartan, barðastóran hatt og ungur síðskeggjaður maður með tískurétt gleraugu. Hann les þykka bók (ég er forvitinn að sjá titilinn á bókinni) en sú japanska skrifar ákaflega á símann sinn. Hún situr næst mér á bekk við bakvegg kaffihússins og gefur frá sér skrýtnar, lágar stunur í undrun eða æsingi yfir einhverju sem birtist á símanum hennar.

Ég borða hins vegar hljóður hafragrautinn minn sem hipsterarnir á kaffihúsinu hafa skreytt með möndlum og ferskum fíkjum. Þetta er alltof stór skammtur af graut og ég get ómögulega klárað það sem þau settu á diskinn minn. En kaffið þeirra er gott.

IMG_2499 copy
Frá hipsterkaffihúsnu, sem er svo heppilega staðsett á jarðhæðinni fyrir neðan Batman-íbúðina.

Ég kom í gærkvöldi til Parísar, tók leigubíl frá flugvellinum og inn í bæ og alla leið til Batman-íbúðarinnar sem liggur í Mýrinni. (Nú kemur aukasetning um leigubílstjóra; staðhæfing byggð á reynslu: Það eru fáar stéttir í heiminum mannaðar af jafn leiðinlegum, þröngsýnum, pirruðum, reiðum, bitrum og dónalegum karlmönnum. Leigubílstjórinn, (karl með doughnut-skegg og hatt) sem keyrði mig frá flugvellinum var lifandi dæmi um þessa manntegund. Skelfilegur maður. Sem betur fer eru til undantekningar og ég hef rekist á ágæta menn innan stéttarinnar.)

Ég hóf ferðina frá Espergærde til Parísar með lestinni til Kastrupflugvallarins. Andspænis mér í lestarvagninum sátu ung hjón – bæði með kringlótt Lennon-gleraugu og klædd í víð, litrík  föt –  ásamt lítilli dóttur sinni. Dóttirin var ansi ræðin og foreldrarnir svöruðu barninu (sem var augljóslega í forgrunni fjölskyldunnar) skynsamlega og settu inn á milli fram áhugaverðar spurningar um lífið á jörðinni. Eftir örstutta þögn  á samtalinu sagði litla stelpan:
„Ef ég eignast einhvern tíma stelpu þá ætla ég að láta hana heita Vagina. Það er svo fallegt.“
Það kom dálítið hik á foreldrana og ég gat ekki annað en litið upp til að heyra hverju þau svörðuð þessu forvitnilega nafnavali. Svo tók móðirin til máls og valdi skynsamlegt svar: „Já, það er mjög alþjóðlegt nafn …“

Í dag byrjar vinnan hér í París. Ég virðist vera nokkuð taugastrekktur (án þess að taka almennilega eftir því). Ég vaknaði nefnilega klukkan þrjú í nótt til að sjá hvað tímanum leið, ég vaknaði aftur klukkan fjögur, og aftur klukkan fimm og sofnaði ekki aftur. Ég hafði stillt vekjaraklukkuna svo hún átti að hringja klukkan sjö.

En Batman-íbúðin er notaleg og meðan ég kom mér fyrir í gærkvöldi setti ég vin minn Chet Baker á fóninn, hann passar fullkomlega inn í Batman-íbúð.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.