París. 173% afköst á fyrsta degi

Ég get sagt það strax, hér og nú, þar sem ég sit á hipsterkaffibarnum mínum  og borða morgunmat: Afköstin í gær voru framar öllum vonum. Í mælanlega hluta verkefnis míns afkastaði ég 173%. Sem sagt nærri tvöföld afköst miðað við áætlanir og markmið.

Að lokinni þessum vel heppnaða degi í gær lagði ég leið mína á ítalska veitingastaðinn hérna í götunni. Þegar ég er í Batman-íbúðinni borða ég kvöldmat næstum alltaf  á þessum litla, ítalska stað sem býður, þrátt fyrir nafn sitt (Le Petit Italian), bara upp á franskan mat – allir réttir eru löðrandi í sósu – en þeir setja oft spaghetti eða einhverja pastategund með á diskinn til að láta diskinn líta út fyrir að vera dálítið ítalskan. Mér finnst þetta fínt, mér finnst sósa góð

Þjónarnir koma frá Marseille og þegar hinn langi Íslendingur mætir snemma kvölds koma þau hvert af öðru (þau eru þrjú), eftir að ég fengið mér sæti, og heilsa mér með handabandi. Ég fæ á tilfinninguna að ég sé mjög velkominn.

Í gær borðaði ég kvöldmatinn alltof hratt, ég gleypti í mig matinn, ég var í algerlega í mínum eigin heimi og borðaði bara án þess að hugsa um hvað ég var að gera. Hugurinn var annars staðar. Þessi fíni kálfakjötsréttur fór því eiginleg öfugur ofan í mig og mér varð illt í maganum af að troða matnum svona ofan í mig. Ég er alger álfur. Ég varð, magans vegna, að afþakka limoncello-staup sem frönsku þjónarnir færa mér alltaf að lokinni máltíð til að gleðja mig.

ps. Hér á  hipsterkaffibarnum mínum þar sem ég borða morgunmat er stólaskipanin þannig að eftir endilöngum bakvegg staðarins er festur  bekkur. Litlum borðum er svo komið í röð fyrir framan bekkinn og einn stóll hinum megin borðs. Í dag eru margir gestir og hvert borð er setið. Ég sit á bekknum við vegginn og við hlið mér situr ungur maður, sennilega japanskur eða kínverskur (ég þekki ekki alveg útlitsmuninn) en hann situr þétt upp við mig. Og þótt ég færi mig aðeins frá honum færir hann sig alltaf nær mér. Ég hef það á tilfinningunni að þeir sem koma frá austurhluta hnattarins (ef maður getur sagt svo) hafi aðra tilfinningu fyrir eðlilegum fjarlægðarmörkum milli manna, the personal space. Hann tekur ekki eftir neinu, skrifar af miklum móð póstkort með mynd af Eiffelturninum til vina sinna í austri og stelur yl frá mínum heita kroppi.

pps. Þrátt fyrir magakvalir og töluvert tempó í vinnunni í gær tókst mér að lesa 150 síður í kvöldlestrinum áður en ég sofnaði með bókina á hausnum.

dagbók

2 athugasemdir við “París. 173% afköst á fyrsta degi

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.