Hér á hipsterakaffibarnum mínum þar sem ég borða morgunhafagrautinn er nýr starfsmaður á kaffivélinni. Ég sé ekki betur en þetta sé sjálfur Michel Houellebecq og það er hann sem sér um tónlistarvalið á staðnum í dag. Mér til undrunar er spilað einhverskonar síðpönk. Hér fyllist allt af tónum örvæntingar og reiði.
Ég er ekki vanur að sofa í stórborg, ég vakna við minnsta hósta gangandi vegfarenda. Í nótt vaknaði ég við hróp og köll klukkan tvö og mér fannst þau engan enda ætla að taka. Þegar mér var eiginlega ofboðið fór ég framúr til að líta út um gluggann og kíkja niður á götu til að sjá hvað gengi eiginlega á.
Fyrir neðan gluggann minn stóð ungt par, ég segi ungt par því sennilega voru þau kærustupar og ung voru þau, stóðu þétt upp við hvort annað, bæði óskaplega spariklædd (hún með hvíta slaufu í hárinu og afar háhælaða skó), og þrátt fyrir næturkyrrðina töluðu þau ægilega hátt eins og þau væru að yfirgnæfa hinn venjulega nið sem fylgir götulífi í stórborgum. Þeim var augljóslega mikið í mun að raddir þeirra heyrðust. Parið var ekki sammála og því hrópuðu þau hvort á annað á frönsku. Ég skildi því ekki hvaða ágreining þau vildu jafna. Ég skil ekki frönsku.
Mér þótti verst að ungu stúlkunni nægði ekki að hrópa röksemdir sínar til unnustans heldur lagði hún áherslu á mál sitt með að slá hann í sífellu í brjóstið. Ungi maðurinn bar ekki hönd fyrir höfuð sér, eða brjóst sér, heldur lét eins og hann tæki ekki eftir höggum stúlkunnar sem dundu á honum. Kannski var það ekki klók taktík því stúlkan sló hann æ fastar.
Ég fylgdist nokkrar mínútur með þessum hávaðasömu viðskiptum og mér datt meira að segja í hug að skilja þetta fólk að þegar mér fannst ofbeldi stúlkunnar vera að ganga of langt. Höggin urðu þyngri.
Samskipti þessa unga fólks endaðu ekki vel því að síðustu sló stúlkan unnusta sinn (fyrrverandi?) löðrung í andlitið svo hvein í, snerist síðan á hæli og gekk burt. Kærastinn sneri líka við og gekk löturhægt í andstæða átt.
Það tók mig langan tíma að sofna eftir að hafa orðið vitni að þessari ljótu viðureign. Og eins merkilegt og það kann að hljóma fékk ég þessa setningu á heilann: „… jafnvel eilífðina hefur hann lagt í brjóst þeirra …“
ps tvennt gladdi mig sérstaklega í gær. 1) Afköst gærdagsins mældust 154%. Það var ég mjög ánægður með. 2) Ég fékk afar uppörvandi tölvupóst frá félaga mínum sem varð til að mótorinn minn fékk nýja og kraftmeiri túrbínu. Það mættu fleiri taka sér félaga minn til fyrirmyndar og skrifa eitthvað skemmtilegt til mín í útlegðina.
pps. Þetta er þriðji morguninn í röð sem ég sit hér á hippsterastaðnum og nú er ég farinn að sjá hverjir eru fastagestir og hverjir ekki. Sá af fastagestunum sem vekur helst athygli mína er miðaldra maður með grátt hár og snyrtilegt skegg sem skrifar í sífellu hjá sér minnispunkta í gula vasabók. Inn á milli lítur hann hugsandi upp frá bókinni sinni, horfir einbeittur út í loftið og hefst síðan handa við að færa inn fleiri minnispunkta. Hann velur alltaf sama sætið, innst inni, fjærst dyrunum, og hefur mótorhjólahjálm á gólfinu við fætur sér.