Af jarðarinnar hálfu byrja allir dagar fallega. Af minni hálfu hefjast Parísar-dagar mínir á hipsterakaffibarnum á jarðhæð Batman-hússins. Nýi starfsmaðurinn, Michel Houellebecq, á væntanlega frí í dag enda laugardagur (hann er hvergi sjáanlegur) og ungu stúlkurnar sem sinna pönnukökubakstrinum sjá um tónlistarvalið. Fyrsta lag á dagskrá er All I need með hljómsveitinni Air.
Það er eilíf dramatík um nætur hér úti á götunni minni Rue des Tournelles. Gluggarnir sem snúa út á götu eru sennilega næfurþunnir því ég heyri saumnál detta á stéttinni fyrir framan húsið. Í nótt vaknaði ég með andfælum – og ég segi það satt það var með andfælum – við ákafan kvenmannsgrát. Úti á götu grét kona bæði með hljóðum og ekka og ekkert, og enginn, virtist geta hugga hana því gráturinn varaði í heila eilífð. Ég er þeirrar ó-náttúru gæddur að hávær og langvarandi grátur fullorðins fólks fer í taugarnar á mér. Skortur á sjálfstjórn og tilhneiging til móðursýki er ekki í uppáhaldi hjá mér.
Ég varð fullkomlega glaðvakandi við þetta langdregna væl þótt klukkan væri rétt að verða þrjú. Ég settist því upp og fór að lesa. Ég tók eftir því að mér höfðu borist nokkrir tölvupóstar frá fólki sem mér finnst gaman að heyra frá. Í gær hafði ég nefnilega hvatt þá sem lesa Kaktusinn að senda mér uppörvandi tölvupóst í einveruna hér í París. Sem betur fer voru einhverjir sem lásu kall mitt og gerðu sitt besta við að senda mér löng og safarík skeyti.
Á undanförnum dögum hefur orðið einstrengisleg(ur) leitað á mig – einstrengisleg(ur) – og er það í tengslum við ákveðna persónu sem ég hef átt viðskipt við, kannski réttara að segja langvarandi (eins og gráturinn) viðskipti við. Að hafa bara einn streng að spila á í hugsunum, orðum og gjörðum. Andstæða þess að spila á marga strengi. Mér finnst þetta einstaklega gott orð úr heimi tónlistarinnar – æðsta listformi mannsins – til að lýsa takmörkunum persónu.
Ég hef oft verið spurður að því hvernig ég fari að því að skrifa einu sinni á dag meðfram öðru sem nefstór Íslendingur hefur á sinni könnu. Nei, þetta eru draumórar, ég hef aldrei verið spurður að neinu í þessa áttina, en það væri auðvitað gaman ef einhver bæri upp þessa skemmtilegu og áhugaverðu spurningu. Ég nálgast hratt Kaktus-færslu númer 1000 og velti fyrir mér hvað ég geri á þeim tímamótum, hvort ég láti gott heita og hætti hinum daglegu færslum. Það vakti mig til umhugsunar þegar ég las um daginn að atvinnumaður í skrifum, það er maður sem fær laun sín fyrir ritstörf, þótti álagið of mikið við að birta færslur ofar en einu sinni í viku.
Þótt í dag sé laugardagur er ekki frí hjá mér. Ég hef áætlun og markmið. Hingað til, það er að segja síðustu þrjá daga, hefur mér tekist að fylgja dagskránni og gott betur því daglega hef ég klárað meira en ég hafði reiknað með að geta á einum sólahring. Í gær var lakasti dagurinn hingað til en mér tókst samt að fara 27% framúr áætlun í hinum mælanlega hluta.
Af ökklanum: Í gær þurfti ég að ganga milli tveggja staða. Ég hef alveg hlíft ökklanum sem enn er bólginn og aumur þótt ég sé mun betri en í síðustu viku. Ég gekk tæplega 10.000 skref og síðustu metrana var ég orðinn haltur. Það er því hvíldardagur fyrir ökklann í dag.
ps ég saknaði fastagestsins í morgunkaffinu með minnisbókina og alla minnispunktana. Hann kom ekki í morgun og í hans sæti settust tvær danskar konur sem tóku ljósmynd af öllu því sem hipsterarnir báru matarkyns á borð fyrir þær.