París. Fagur sem englarass

Ég leyfði mér þann lúxus  að færa vekjaraklukkuna aftur um 20 mínútum svo ég vaknaði þessum 20 mínútum seinna en aðra morgna. Þegar ég lagðist upp í bælið í gærkvöldi fann ég að ég var þreyttur; undanfarnar nætur hafa verið óróasamar og vegarendur hér í götunni minni hafa verið dramatískir mitt um nótt og vakið mig með hávaða og ólátum. Í nótt svaf ég eins og steinn og vaknaði tíu mínútur í sjö án þess að svefninn hafði verið rofinn. Dásamlegt. Þetta var um svefninn.

Ég vann upp þessar tuttugu mínútur sem ég hafði notað í aukasvefn strax í morgun með því að ákveða að fara ekki í sturtu, ég er hreinn og fagur eins englarass svo mér fannst allt í lagi að spara tuttugu mínútur með því að sleppa fegrunaraðgerðum. Ég finn að tímapressan á mér eykst, aðeins tveir dagar eftir í París; dagurinn í dag og morgundagurinn því ég flýg til Kaupmannahafnar á þriðjudag. Í gær vann ég linnulaust, án matar og drykkjar, (morgunhafragrauturinn dugar lengi) til klukkan 18:05 og afköstin voru 148% miðað við hinn mælanlega hluta eins og maður segir. En þeir tveir dagar sem ég á eftir af útlegðinni er of skammur tími – ég hefði þurft þrjá aukadaga til að ég hefði verið alánægður með þau skref sem hafa verið stígin. En ákveðið hefur verið að þann 20. nóvember ferðist ég aftur til Parísar og haldið verði áfram þar sem frá var horfið. Vika í Batmaníbúð í nóvember.

Ég er auðvitað oft spurður að því út á hvað verkefni mitt gangi hér í París. Mér þykir leiðinlegt að geta ekki upplýst það. En ég hef lofað að halda því leyndu og ég held það loforð. En ég get þó sagt að ef upplýsingar leka út til forvitanna er ég viss um að fólk ypptir bara öxlum og segi: nú var það svo ekki merkilegra … sem sagt allir forvitnir geta andað rólega, heiminum verður ekki bylt og sennilega á enginn eftir að missa svefn út af þessu.

ps. Vinur minn fastagesturinn hér á hipsterakaffibarnum, maðurinn með mótorhjólahjálminn við fætur sér, hafði þegar fengið sér sæti (sitt fasta sæti) þegar ég kom í morgunmatinn í morgun. Það sveimuðu minnispunktar í kringum höfuðið á honum þar sem hann horfði upp í loftið með penna á lofti og sína gulu minnisbók á borðinu. Ég ákvað að setjast við laust borð næst honum og reyna að laumast til að sjá hvað hann skrifaði hjá sér þessi íhuguli maður; ég er svo forvitinn. Ég fékk gott tækifæri til að gjóa augunum ofan í minnisbókina þegar hann stóð upp frá borðinu sínu og til að fá sér kaffiábót og mér til undrunar var gula bókin hans full af stærðfræðiformúlum og reiknidæmum. Það kom mér sannarlega á óvart.

pps  Í gær var orð dagsins einstrengisleg(ur) – einstrengisleg(ur) sem lýsing á manni sem velur oftast bara að spila á einn streng í orðum, athöfnum og gjörðum. Orð dagsins í dag er aftur á móti uppivöðslusamur(söm)  – uppivöðslusamur(söm). Þetta orð kom upp í huga mér í gær þegar ég heyrði í manni sem vill ala börnin sín upp í að vera uppivöðslusöm (þótt hann valdi sjálfur ekki það orð). Mér finnst það ekki sjarmerandi eiginleiki hjá nokkrum manni og enn síður hjá börnum.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.