París. Handarband tveggja einstaklinga.

Ég hef tekið eftir því hér í París að mér er oft heilsað með handarbandi. Fólk sem ég er aðeins farinn að kannast við, eða fólk sem er aðeins farið að kannast við hinn langa Íslending, heilsar mér innilega með handarbandi þegar leiðir okkar mætast. Litlu hipsterarnir mínir á histerakaffibarnum koma til mín, þar sem ég sit við mitt borð og minn hafragraut á hipstrastaðnum þeirra og rétta mér höndina og vilja heilsa mér. Við heilsumst. Þetta er allt afar elskulegt.

Það sama gildir um þjónana á ítalska veitingastaðnum ofar í götunni. Á hverju kvöldi er mér heilsað innilega með handarbandi. – Nú kemur útúrdúr, hálf sorgleg saga. Í gær sveik ég ítalska veitingahúsið í fyrsta skipti síðan ég kom. Maturinn hefur ekki verið nógu góður. Ég vel alltaf rétt dagsins (vil að afgreiðslan gangi greitt) en eftir að ég fékk soðinn kolkrabba með rauðri sósu og grænum baunum í fyrrakvöld ákvað ég að láta gott heita. Kokkurinn er örugglega nýr og óreyndur og matargerðarlistin á enn nokkuð í land hjá honum. Í gær fór ég á ekta franskan stað og fékk góðan mat en ekkert handarband. Hér lýkur útúrdúr.

Í morgun kom ég á hipsterastaðinn minn til að panta hafragraut dagsins. Þegar ég opnaði dyrnar sá ég mér til gleði að maðurinn með minnispunktana sat í sínu fasta sæti út í horni. Mér fannst eðlilegast að setjast næst honum. Hann leit á mig og kannaðist augljóslega við andlitið á mér því hann kinkaði kolli. Ég ákvað því, að hætti Parísarbúa, að rétta honum höndina. Heilsa honum almennilega. Hann var augljóslega ekki alveg tilbúinn í handaband svo snemma í kunningsskap okkar. Hann leit undrandi á hönd mína eins og hann héldi að ég væri að rétta honum eitthvað. Þegar hann uppgötvaði að ég hafði ekkert í hendinni, ég var ekki að færa honum neitt, skildi hann (og það leið vandræðalega langur tími) að ég vildi bara heilsa honum. Hann rétti mér því hikandi höndina og við heilsuðumst. Ég uppgötvaði að ég hafði gert mistök.

Ég settist niður og beið því færis til að bæta úr þessum vandræðagangi. Hann grúfði sig ofan í gulu minnisbókina sína og horfði af og til hugsandi út í loftið þar til hann festi næstu hugsun á blað. Og ég beið færis. Hugur minn, eins og hugur hans, hringsnerist. Hvernig gæti ég bætt úr mistökunum með handarbandið og komist í samband við þennan viðkunnanlega, miðalda mann, sem hafði svo margt að velta vöngum yfir snemma morguns. Næst þegar hann leit upp og reyndi að veiða úr loftinu einn af minnispunktunum sem sveimuðu í kringum höfðuð hans, ákvað ég að slá til.

„Þetta eru flókin reiknisdæmi sem þú fæst við,“ sagði ég glaðlega.  Ég hafði nefnilega laumast til að kíkja ofan í minnisbókina hans í gær og sá að hann skrifaði hjá sér eitthvað sem líktist lögum stærðfræðiformúlum. Hann leit spyrjandi á mig og enn á ný fann ég að ég hafði gert mistök í mannlegum samskiptum.
„Hvað segirðu?“ sagði maðurinn. Hann var augljóslega forvitinn að heyra spurninguna aftur því hann hallaði sér áhugasamur í áttina til mín.
„Þetta eru flókin reiknisdæmi sem þú fæst við,“ endurtók ég hikandi og ég sá  vandræðasvipinn færast yfir andlit þessa miðaldra hugsuðar. Hann skildi ekki hvað ég átti við.
„Hvaða reiknisdæmi ertu að tala um?“ sagði hann vinsamlega, en hikandi, og leit í kringum sig eins og í leit að reiknisdæmunum. Hann skoðaði svörtu krítartöflurnar sem héngu á veggjunum þar sem matseðill dagsins er skrifaður. Hann fann ekkert sem minnti á stærðfræði og leit því aftur á mig, jafnáhugasamur og fyrr. Ég sá að ég var kominn í ógöngur og vildi helst losna hratt úr þessu óskiljanlega samtali.
Hvað átti ég að segja núna? Átti ég að viðurkenna að ég hafði kíkt í minnisbókina hans í gær og séð allar reiknisformúlurnar. Eða hvernig átti ég að skýra þetta með reiknisdæmin.
„Þú ert stærðfræðingur, er það ekki?“ datt út úr mér.
Enn á ný horfði ég framan í andlit sem var fullkomlega skilningsvana.
„Nei,“ sagði hann og eftir stutta þögn. „Ég er enginn stærðfræðingur. Kann ekki einu sinni að leggja saman tvo og tvo.“  Klúður mitt ætlaði engan enda að taka.
„… ert þú ekki að rugla mér saman við einhvern annan,“ bætti hann svo við. Var svo vinsamlegur að henda björgunarhring til drukknandi manns.
Ég greip björgunarhringinn í neyð minni: „Ó fyrirgefðu, ég hef ruglað þér saman við annan,“ sagði ég afsakandi og ákvað að nú væri nóg komið, ég skyldi vera hljóður.

Nú sitjum við þegjandi hlið við hlið og hann gerir enga tilraun til að efla samband okkar.

ps síðasti dagur minn í París á morgun flýg ég til Kaupmannahafnar.

dagbók

Ein athugasemd við “París. Handarband tveggja einstaklinga.

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.