París. Veikleikamerki hins tilvonandi elskhuga

Ég er á leiðinni heim frá París. Leigubíllinn brunar eftir hraðbrautinni burt frá borginni í átt til flugvallarins. Ég veit ekki hvað ég á að segja um sjálfa ferðina, sjálfa dvölina, sennilega hefði ég getað verið hvar sem er; Lion, Berlín, Mílanó, Bern. Borgin lék ekki sérlega stórt hlutverk þessa viku. Allt snerist um afköst og framgang. Og þar sem ég gat ekki almennilega gengið á milli staða (ökklinn) fór borgin fyrir ofan garð og neðan.

Í gær var síðasta kvöld mitt í Parísarborg og ég ákvað að borða aftur kvöldmat á franska staðnum, Le Petit Marché, og svíkja þar með enn á ný vini mína á ítalska veitingastaðnum sem ég hef hingað til sýnt svo mikla tryggð. Ég er svo kaldrifjaður að ég tek matargerðina fram fyrir handarbönd og vinsemd – nei, það er ekki rétt, því ég met handarböndin og vinsemdina mikils, set ofar en matargerð, bara ekki í gær.

Það er setið þröngt á þessum notalega, franska stað. Í sætið næst mér settist fljótlega kornungt par, eiginlega tróðu þau sér við hliðina á mér. Eitthvað í fari þeirra sagði mér að þetta væri fyrsta stefnumót sem þau áttu. Þau voru feimin hvort við annað og vandræðaleg í fasi. Ungi maðurinn, með þykkan hárlubba sem stóð í allar áttir, snerti í sífellu andlit sitt, nuddaði höku eða strauk sér um kinn. Ég var að því kominn að segja honum að hætta því. Ég lærði ungur að hafa hendurnar í andlitinu væri mikið veikleikamerki. Mér harðari drengur með grófara uppeldi fræddi mig á þessu þegar ég var strákur og þetta lærði ég og tileinkaði ég mér. Ég var að því kominn að kenna sessunaut mínum á franska veitingastaðnum, unga drengnum með hárlubbann, þessi sannindi. Og að ef hann vildi vinna ástir ungu konunnar, sem sat andspænis honum, skyldi hann láta samstundis af þessum ósið.

Þótt ég hefði skamman tíma í morgun til að borða morgunmat áður en ég settist inn í leigubílinn fannst mér ég ekki geta annað en kíkt með hraði inn á hipsterastaðinn til þess að kveðja hina velviljuðu og geðugu hipstera sem hafa tekið mér svo vel þessa viku.

Ég hikaði eitt andartak við að finna mér borð. En herti mig þó upp og settist við hlið hugsuðarins sem á sér fast sæti úti í horni staðarins. Ég hafði sýnt gagnvart honum fádæma hæfileikaleysi í mannlegum samskiptum í gær – um það má lesa hér – en ég herti upp hugann og settist næst honum. Hann var eins og venjulega í þungum þönkum og gula minnisbókin var á sínum stað fyrir framan hann á borðinu. Strax og hann varð mín var lifnaði hann allur við og rétti mér höndina til að heilsa mér. Við heilsuðumst með innilegu handarbandi sem var nokkur uppreisn fyrir mig eftir allt klúðrið í gær. Við snerum okkur svo jafnharðan hvor að sínu.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.