Espergærde. Einn dagur úr ári.

Ég svaf í mínu eigin rúmi í nótt, borðaði mína eigin útgáfu af hafragraut í morgun og sit nú á danskri jörð og skrifa dagbók. Parísarlíf að baki og mitt góða líf í Espergærde tekur við. Allt er þetta ánægjulegt og það var líka gott að vera í París, þessa sjö daga úr ári, og ég held eiginlega að ákveðnum áfanga hafi verið náð í verkefninu Fellibylurinn Betsy, sem nú er um það bil eins árs gamalt og nær vonandi ekki tveggja ára afmæli áður en því verður lokið.  Mér finnst góðum áfanga hafa verið náð í þessari ferð þegar ég nú lít til baka.

Í gær pantaði ég bók sem heitir Einn dagur á ári og er eftir þýska höfundinn Christa Wolf. Christa ákvað að skrifa nákvæma dagbók um daginn 27. september (afmælisdaginn hennar Öglu) á hverju ári: fyrst árið 1960 og á hverju ári  alveg fram til ársins 2000. Hún skráði hugsanir sínar, athafnir, hugmyndir og það sem fyrir augu bar þennan ákveðna dag í fjörutíu ár. Ég las um þessa bók um daginn og mér, sem dagbókarskrifara, fannst þetta heillandi verkefni. Ég hafði svo sem ekki hugsað mér að halda minni eigin dagbók úti í fjörutíu ár en þegar ég las um þessa bók  fannst mér allt í einu það ekkert vitlausara en annað. Dagar mínir eru athyglisverðir fyrir sjálfan mig – ekki ástæða til að prenta þá í bók eins og daga Christu Wolf – en skráninga daganna eflir mig og ég held að minnsta kosti íslenskunni við með því að skrifa.

ps. Sem áhugamanni um tennis finnst mér hörmulegt að horfa upp á frú Serenu Williams og ókurteisi hennar á US Open og viðbrögðin við hegðun hennar. Að tennisspilarinn snúi fullkomlega eðlilegum og réttmætum ákvörðunum dómara upp í karlrembu er lægsta sort. Að reyna afsaka og réttlæta hatursfulla hegðun með því að benda á að maður tilheyri einhverjum minnihlutahópi er ekki leiðin til himna.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.