Espergærde. Sex hugsanlega eftirminnileg atvik.

Föstudagurinn 14. september árið 2018. Hvers skyldi ég minnast frá þessum degi þegar ég lít til baka? Hér er listi yfir hugsanleg atvik, hugsanir eða athafnir sem koma til greina.

  1. Ég las tvennt í morgun yfir morgunkaffinu í Weekendavisen sem vakti athygli mína: a) gagnrýni á nýrri bók Richard Ford, Between Them, (frábærir dómar) sem nýlega er útkomin hér í Danmörku þar sem hann skrifar minningarbrot um foreldra sína. Mér fannst þetta athyglisvert og ég hef pantað bókina. Þegar maður hefur misst foreldra sína fer maður að hugsa meira, oftar og öðruvísi um þá. Minnast þeirra og sjá þau ekki lengur bara sem foreldra. b) hitt sem ég las í Weekendavisen sem mér þótti vert að muna. Í dag var skrifað töluvert um bók Bob Woodwards um forseta Bandaríkjanna Donald Trump. Mér þykir þetta athyglisverð bók og aðferðin sem hann beitir við bókaskrifin þykir mér líka áhugaverð.
  2. Ég fékk líka undarlega setningu í höfuðið í morgun. Það var í sambandi við gamlan samstafsmann minn hér í Danmörku: Ef maður setur slöngu, rottu, fálka, kanínu, hákarl og sel í sama rými má reikna með að fljótlega fljóti allt í blóði og allt verði frekar subbulegt.
  3. Í gær fékk ég nokkur skeyti frá lesendum Kaktusins (ég sá sum skeytin fyrst í morgun) sem tóku þátt í lítilli bókmenntagetraun og sendu svar sitt. Alir höfðu rétt svar og ég var hissa, eða það kom mér á óvart,  á hvað margir hafa góða þekkingu á íslenskri nútímaljóðlist. Verðlaunafé getraunarinnar er ég neyddur til að skipta á milli vinningshafa, þótt einn svarenda hefði sagt að hann ætti heldur að veita mér verðlaun fyrir að vitna í svona fallegt og gott ljóð.
  4. Jógatíminn í morgun var hein barátta við að halda lífi. Ég hafði eitt af mínum undarlegu köstum þar sem ég er eins og titrandi strá, sveittur, fölur, skjálfandi og að því kominn að æla. Við þetta ástand barðist ég í rúman klukkutíma í hinum mörgu óbærilegu jógastellingum.
  5. Þessi dagur er sá þriðji í kjötlausri tilveru minni. Ekkert kjöt á boðstólum næstu tvær vikur.
  6. Í gærkvöldi (og sú góða tilfinning lifir enn í mér) náði ég að ljúka einum áfanga í verkefninu Fellibylurinn Betsy. Kannski á þetta afrek, því ég lít á þetta sem stórt persónulegt afrek, eftir að fylgja mér það sem eftir er ævinnar.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.