Espergærde. Óþægindi sem símtæknin getur valdið

Í göngutúr mínum  í gærkvöldi niður á ítölsku pizzeríuna hér niður á höfn hringdi síminn minn. Það vill svo til að síminn minn hringir afar sjaldan og ég hringi sjaldan úr símanum mínum. Hin síðari ár hef ég frekar forðast að tala í síma. En síminn minn hringdi skyndilega þegar ég gekk eftir Strandvejen og á skjánum birtist ókunnugt íslenskt númer og það vakti auðvitað forvitni mína.

Ég svaraði og á hinum enda línunnar var kona. Þótt hún talaði í upphafi stillilega var henni þó nokkuð niðri fyrir og hún hóf fljótlega að útskýra mál sitt af miklum ákafa, án þess að hún gæfi mér færi á að svara eða útskýra mál mitt. Ég heyrði strax að hún hafði misskilið eitthvað því ég áttaði mig  smámsaman á að hún talaði eins og ég væri virkur þátttakandi í atburðum á Íslandi sem ég hafði ekki komið nálægt og veit ekkert um.

Ég er ekki alveg viss hvort það rann upp fyrir konunni ljós; að hún skildi að ég átti enga aðild að þeim atburðum sem hún lýsti, áður en hún sleit samtalinu nokkuð skyndilega.  Símtalið og sú óþægilega tilfinning sem það vakti, situr enn í mér.

Í dag ætla ég nota tímann til að lesa. Á minni könnu er rannsóknarverkefni og til að sinna rannsóknum mínum af alúð og gleði les ég.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.