Í gær hafði ég tekið að mér að skrifa grein fyrir veftímarit, eða vefmiðil, ég veit ekki hvað maður á að kalla þetta. Þótt ég hefði vitað um verkefnið í nokkurn tíma var ég bara ekki andlega tilbúinn í gær og allt vann á móti mér. Ég hef verið mjög upptekinn síðustu daga og hef haft hausinn fullann, svo þessi skrif fyrir vefritið komust bara ekki að og þegar ég hafði loks mannað mig upp kom duglegi maðurinn, nágranni minn, og vildi setjast og spjalla. Það var fínt en ég hafði dead-line sem nálgaðist og tíminn leið. Það var svo ekki fyrr en seint í gærkvöldi að ég fékk næði til að setjast niður og skrifa, alveg á síðustu stundu.
Ég fylgist með umbyltingunni á hinu virðulega forlagi Gyldendal hér í Danmörku. Forlagið hefur haft þann virðingarsess að gefa út bækur sem „bara verða að koma út“ þótt öll fjárhagsleg skynsemi mæli á móti. Persónugervingur þessara gömlu gilda, hinn mikli talsmaður hinna menningarlegu dyggða, Johannes Riis hefur sagt upp stöðu sinni því forlagið hefur ákveðið að breyta stefnu og sigla nú sömu leið og önnur forlög eða sömu leið og allur hinn kapítalíski heimur; eftir auknum árlegum hagnaði, aukinni árlegri hagræðingu, meiri árlegri veltu. (Þetta minnir mig enn á brandarann hans Húberts Nóa þegar verkstjórinn okkar í girðingarvinnunni keyrði VW vinnubílinn greiðlega: „Gunnsteinn,“ sagði Húbert Nói, „þú setur stanslaus hraðamet.“ Þetta fannst okkur fyndið.)
En svo er nú komið í okkar heimi að það er enginn sem setur spurningarmerki við að kapítalisminn sé hið eina og rétta form til að reka samfélög. Við stefnum að framförum, hagnaði og það sem ekki stefnir í þá átt er dæmt úr leik, sama hvaða menningarlegu- eða náttúruhamfarir það hefur í för með sér. Veðurfarsbreytingar, flóð og hamfarir (allt skapað af mannavöldum), er óumflýjanleg afleiðing kapítalismans og því rekstrarformi á samfélagi verður bara ekki breytt. Enginn setur spurningarmerki við hvort allar þessar framfarir, hraði, hagræðing sé nauðsynleg.
Ég vona að sú tíð komi að að heimurinn fari að rækta menningu, fegurð og náttúru, þessi gildi verði sett í efsta sæti. Og að (stanslaus) aukinn hraði, (stanslaus) aukinn hagnaður og (stanslaus) aukinn hagræðing verði sett neðar á vinsældarlistann.