Espergærede. Tilgangur / tilgangsleysi

Ég er enn seinn og það er komið fram yfir hádegi þegar ég sest niður. Ég hef verið á ferðinni, Helsingør (með ökklann, það er sagan endalausa), í Rødøvre (löng keyrsla) í sambandi byggingarverkefni mitt og í Humlebæk ( á leiðinni heim) til að kaupa mér eitthvað í gogginn. En nú er ég sestur.

Ég hef eiginlega lent í hálfgerðri tilvistarkreppu, eins og gerst víst hjá fólki. (Maður sveiflast.) Ég hef fundið fyrir einhverri skrýtinni og þungri þögn inni í mér síðustu daga. Mig langar bara ekki að segja neitt  … og ég hef bara almennt verið eitthvað frústreraður. Skyndilega fannst mér allt mitt stúss tilgangslaust,  bókmenntaverkefnin, þýðingarnar,  öll verkefnin sem ég vesenast í … og Kaktusinn … ég varð bara allt í einu svo undarlega niðurdreginn. Ég leit um öxl og ég horfði fram á við og ég gat ekki annað en hrist hausinn yfir sjálfum mér. Hvað er ég eiginlega að gera? Kannski eru þetta timburmenn eftir Parísarferðina þar sem allt gekk svo vel.

Ef til vill hefur maður frekar tilhneigingu til að lenda í þessari holu ef maður vinnur mánuðum saman án þess að fá laun fyrir vinnu sína. Mig skortir alls ekki fé, það er ekki það sem ég er að segja, heldur virðist það vera svo í mínu höfði og sennilega er það svo í höfðum fólks, að greidd laun fyrir vinnu gefur verkefninu tilgang og þar með öllu stússinu. Maður getur ekki bara setið og vesenast í því sem maður hefur áhuga á vikum og mánuðum saman án þess að fá laun – slíkt virðist ekki alveg meika sens.

En svo fór ég að hugsa um fólk í kringum mig og hvað það stússar, hvað það gerir með sitt líf. Í gær kom vinkona Sus í heimsókn. Hún vinnur hjá Bang & Olufsen við að markaðssetja hátalara og fær greitt fyrir það. Hún er mega-stressuð og rífur hár sér yfir tímaskorti. Og hún er bara að undirbúa sölu hátalara (Bang & Olufsen framleiðir nokkrar ólíkar hátalarategundir…). Lars félagi minn situr og selur fólki tímaskráningarkerfi (og fær sín laun fyrir það) og á í harðri samkeppni við 30 önnur fyrirtæki sem selja önnur tímaskráningarkerfi. Honum leiðist að selja þessi kerfi. Thomas situr og forritar tölvukerfi og hundleiðist … Bara að þetta fólk fær laun fyrir vesenið í sér helgar tilganginn með stússi þeirra. Meikar þessi tilvera þeirra eitthvað frekari sens en mín?

Ég reyni að hrista þetta af mér með því að horfa á hlutina frá öðru sjónarhorni. Á morgun sveiflast ég örugglega í hina áttina, bjartsýni og gleði …

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.