„Einbeitið ykkur að andartakinu,“ sagði jógakennarinn minn í morgun á meðan ég rembdist í hundsæfingunni. „Andartakið kemur aldrei aftur.“ Þetta er jóga; maður er með jöfnu millibili minntur á hvað maður er dauðlegur. Dauðinn svífur yfir manni, andartökin koma aldrei aftur. Ég er enginn jógamaður, ég á erfitt með einnar-setningar-speki, ég á erfitt með að gera hundsæfinguna, og allar aðrar jógaæfingar. En samt mæti ég þeirri í trú um að þetta sé gott fyrir mig og geri mig minna dauðlegan. Eða lengi lífdaga mína. Já.
Ég rakst á bókmenntavef sem heitir skald.is. Sennilega er þetta ekki nýr bókmenntavefur en ég hef ekki heyrt um hann fyrr. En ég varð hissa þegar ég uppgötvaði að vefurinn er eingöngu helgaður konum og skáldskap kvenna. Sennilega er ekkert athugavert við það og kannski bara athugavert að mér finnist þetta skrýtið. Ég á bara eitthvað erfitt þegar fólk er sífellt sett í einhverja flokka þótt það heyri í raun og veru saman. Skáld er orð sem lýsir manneskju (af öllum hugsanlegum kynjum) sem fæst við skáldskap, því tekur maður eftir því þegar karlarnir eru ekki undir þessum skald(a).is-hatti. Mér er svo sem alveg sama hvernig menn flokka og skilgreina bókmenntasíður sínar; fólk má bara gera nákvæmlega eins og því sýnist. Mér finnst bara skemmtilegra að lesa bæði um bókmenntalíf kvenna og karla á sama stað. En fínn vefur skald.is. Mikið af efni og áhugavert sérstaklega fyrir þá sem hafa „brennandi áhuga á bókmenntum kvenna og vilja sjá veg þeirra sem mestan.“
Ég las Weekendavisen í morgun áður en ég keyrði af stað til jóga. Mér finnst venjulega mjög gaman að lesa Weekendavisen, gott vikublað, en í morgun varð ég extra glaður þegar ég sá þessa fínu auglýsingu: „Mød den store islandske forfatter Einar Már Guðmundsson, nyd hans oplæsning, køb bøgerne!“ stóð í auglýsingunni og mér fannst sérstaklega gaman að hafa Weekendavisen fyrir framan mig..