Ég var kominn á fætur fyrir sólarupprás. Á meðan hafragrauturinn kólnaði á disknum mínum lallaði ég út í póstkassa, sem stendur út við lóðarmörkin, til að ná í dagblaðið. Hér eru blaðberarnir árrisulir og bera út dagblöðin fyrir klukkan fimm á morgnana. Þetta var falleg dagsbyrjun. Ég staldraði við úti á götu til að skoða heiminn. Í höfðinu á mér söng Sampha „I love those mornings …“ Yfir götunni minni var vær svefn, allt var í fastasvefni, líka fuglarnir og blómin.
Í gær kom ég heim í hádeginu til að fá mér hádegismat með Sus, það geri ég næstum dagalega – rölti kortersgang frá skrifstofunni og heim. Ég hafði farið út í garð til að tína nokkra tómata á hádegisdiskana okkar þegar pósturinn kom með pakka til mín. Hann var glaður að sjá mig húkandi yfir tómötunum því honum finnst gaman að fá að tala við einhvern á miðjum vinnudegi. Kannski hefur hann ekki svo mörg tækifæri til að spjalla. Hann rétti mér þykkan pakka og ég vissi vel að þetta var bókin sem ég hafði pantað hjá Amazon, One Day a Year eftir Christu Wolf. Ég gladdist mjög að sjá að bókin var komin og spurði í gleði minni póstmanninn, sem er ungur og feiminn, hvort hann vildi ekki borða nokkra tómata með mér. Jú, hann var vitlaus í tómata. Svo stóðum við saman og borðuðum litlu tómatana sem vaxa á tómataplöntunni minni (þeir eru góðir) og hann sagði mér sögur af starfi sínu sem póstmaður, frá einsemd sinni þegar hann kemur heim að loknum vinnudegi og horfir einn í litlu íbúðinni á kvikmyndir af DVD diskum, frá pabba sínum sem er drykkjumaður og rekur vonlausasta og druslulegasta fyrirtæki í öllum bænum … en hann er brosmildur póstmaðurinn minn.
Ég var svo glaður að fá bókina að ég gat ekki beðið með að byrja að lesa svo ég las á göngu minni aftur til vinnu. Það er skrýtið að lesa í dagbók konu (ég er orðinn áhugamaður um dagbókarskrif) sem hún hefur skrifað árið 1960 í Austur-Þýskalandi; um drauma hennar um hið sósíalíska samfélag og vonbrigðin yfir samferðamönnum sínum sem flýja yfir til Vestur-Þýskaland og svíkja þar með hugmyndina um fyrirmyndarsamfélagið … Þetta er allt annað líf en það sem ég þekki og skrái í mína dagbók.
