Espergærde. Ólgandi blóð eftir sólsetur

Ég var hálf undrandi á sjálfum mér í gærkvöldi þegar ég lagðist til svefns, meira segja svo hissa að ég spurði sjálfan mig upphátt hvað það ætti eiginlega að þýða að borða sælgæti rétt fyrir háttatíma þótt það væri gegn minni betri vitund. Ég hef ekkert gott af sætindum og sælgæti skapar bara óróa í kroppnum á mér. Enda kom það á daginn að ég svaf illa í nótt með allan þennan sykur, sem æsti mína viðkvæmu lund, þjótandi um æðarnar. Það mætti eiginlega kalla það skort á staðfestu eða veiklyndi að geta ekki afþakkað sætindi þegar þau eru sett er fyrir framan nefið á manni, þótt skálin sem sælgætið er borið fram í beri bæði vott um fágun og smekkvísi. Ef einhver setur aftur slíkt fyrir framan mig í kvöld læt ég það alveg eiga sig að moka þessu upp í munninn á mér. Þannig sýni ég bæði sjálfum mér og umheiminum að ég er ekki vingull, ég er með bein í nefinu. Það er nóg af vinglum í heiminum, í rauninni alltof margir vinglar.

Ég var líka hissa á sjálfum mér í gærdag; sem sagt tvisvar var ég hissa á sjálfum mér á einum sólarhring. Ég sat tímunum saman yfir litlu verkefni sem ég hafði tekið að mér og eyddi að minnsta kosti fjórum tímum í eitthvað sem ég hefði átt að nota tuttugu mínútur til að leysa. Þegar dagur var að kvöldi kominn var ég eiginlega miður mín að hafa farið svo illa með daginn. Ég fór þess vegna í jakka og skó og gekk út. Ég rölti í rólegheitunum niður á höfn og horfði yfir til Svíþjóðar (í austurátt)  þar sem þeir eru í gangi með samfélagsverkefni sem ég er hræddur um að heppnist ekki.

Ég hitti engan við höfnina, eins og allir bæjarbúar sætu innivið og leystu verkefni sín á meðan ég gekk úti í rigningunni. Ég var hrakinn og blautur þegar ég öslaði í gegnum ökkladjúpa polla framhjá ítalska bjórbarnum við höfnina. Þar var enginn nema þjónarnir sem stóðu þegjandi út í dyrum og horfðu á regnið.

ps. Ég las athugasemd á alheimsvefnum fyrir skömmu sem fór svo í taugarnar á mér að ég var eiginlega viðþolslaus. En til að sýna staðfestu mína og karakterstyrk neitaði ég mér um að gera athugasemd við þessa athugasemd hér á Kaktus því ég veit að slíkt býður ekki upp á annað en skítkast á samfélagsmiðlum frá einstrengingslegu (þarna nota ég hið fagra orð úr tónlistaheiminum) fólki sem mér líkar ekki við og deili ekki sömu sýn á heiminn (sem betur fer, langar mig að bæta við, en geri það ekki. Karakterstyrkurinn, yo!)

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.