Espergærde. Hefndin

Skýin voru rauðlogandi þegar ég skundaði af stað til vinnu snemma í morgun. Sólin var rétt skriðinn yfir hafflötinn í austri og litað svo fallega þungu, svörtu skýin sem héngu yfir mér. Þessi drungalegi himinn var ekki bara yfir mér heldur líka yfir kunningja mínum sem ég mætti úti á götu eins og svo oft áður. Hann gekk, eins og venjulega, með hundinn sinn í bandi og hélt á kaffibolla, eða kaffifanti ætti ég kannski að segja því þetta er feykistórt kaffiílát sem hann ber með sér um götur bæjarins.

Hann byrjar oft inn í miðju samtali, kunningi minn með hundinn, þegar við rekumst hvor á annan Hann hefur ekki fyrir því að hita upp fyrir samtalið. Hann byrjar bara. Hann er alltaf tilbúinn með eitthvað umræðuefni þegar leiðir okkar liggja saman. Oft er viðfangsefni hans trúarlegs eðlis, eða að minnsta kosti tilvistarlegs eðlis. Í morgun var það hefndin sem honum hugleikin.

„Sjáðu,“ sagði hann. „Þegar ég var barn var mér mikið strítt.“
„Var þér strítt?“ spurði ég. „Og góðan daginn, segir maður.“
„Já, einmitt … en ég var lagður í einelti og ég mátti þola að vera auðmýktur og niðurlægður á alla hugsanlega vegu.“
Ég horfði á þennan kurteisa og myndarlega mann og ég átti erfitt með að ímynda mér að hann hefði mátt þola slíka meðferð í æsku.
„Ég svaraði aldrei fyrir mig eða bar hönd fyrir höfuð mér. Ég grét hins vegar oft þegar ég gekk heim úr skólanum; aldrei svo aðrir sæju og foreldrar mínir vissu ekki neitt. Þau héldu að ég væri glaður skóladrengur og hamingjusamt barn.“
„Ja hérna,“ sagði ég. Þessar fréttir komu  mér á óvart og ég átti erfitt með að sjá fyrir mér þennan heilbrigða mann í þessum sporum.
„Já, ég grét líka í laumi inni á herberginu mínu. En það sem verra var, ég hafði þessar svakalegu fantasíur um hefnd.
„Um hefnd?“ spurði ég. Hann kom mér sífellt á óvart.
„Já, um hefnd, og ég segi þér alveg eins og er, að ég geng enn með þessar hefndarfantasíur í höfðinu. Það er svo mikið ofbeldi sem hefur safnast upp í mér, ofbeldi sem aldrei hefur fengið útrás. Og hefndin er enn meginviðfangsefni huga míns. Það er alveg satt.“
„Þetta hljómar svakalega, á ég að vera hræddur við þig?“
„Nei, mér dettur ekki í hug að framkvæma allt þetta ofbeldi sem snýst í hringi inni í höfðinu á mér. En það er sérstaklega einn maður sem sækir enn á huga minn. Ég geri honum ekki neitt, en ég held að ég muni ekki vera sérstaklega kurteis ef ég hitti hann. Ég fyrirlít hann.“

Við kvöddumst. Þetta  samtal sat í mér á göngu minni upp á skrifstofu og ég hugsaði um hefndina. Ég man ekki til þess að ég hafi hefnt mín á neinum. Ekki enn.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.