Espergærde. Trommuleikarinn

Þeir dagar koma þar sem höfuðið á mér er fullt af tónlist J.S. Bach – oftast orgelmúsik – og ég get ekkert gert til að fá þennan söng út úr höfðinu á mér. Oftast tengi ég þessa Bach-daga við tregafullt geðlag sem af og til sækir á mig. Stundum er ég í rauninni í efa um hvort að treginn er afleiðing af tónlistinni sem fyllir höfuð mitt eða öfugt að treginn kalli fram orgelmúsik Bachs. En í dag er flutt fantasia og fuga í höfðinu á mér.

Ég fæ sem betur fer ekki  persónur á heilann eins og sumir, það þætti mér afleitt.

Ég heyri út undan mér að bókavertíðin á Íslandi sé að hefjast. Það er komið haust og jólin nálgast og smám saman er bókum skyndilega haldið á lofti í fjölmiðlum. Ég frétti að Sigurður Valgeirsson, trommuleikarinn, sem er fastamaður í bókmenntaþættinum Kiljunni í Sjónvarpinu, ætli (eða kannski er hann búinn að því) að fjalla um bók félaga síns Einars Kárasonar. Ísland er lítið land og bókmenntasamfélagið á Íslandi er jafnvel aðeins  minna. Það getur verið erfitt að finna óvilhalla gagnrýnendur í slíku fámenni.  Maður verður að trúa því að Sigurður hefji sig upp yfir kunningsskap sinn við Einar Kárason þegar hann fjallar um bók félaga síns.

Þetta er færsla númer 999 hér á Kakstus. Á morgun, ef Guð lofar, skrifa ég færslu númer 1000. Því afreki ætti maður kannski að leyfa sér að fagna.

ps Í gær á leið heim úr vinnu kom ég auga á ungan mann sem var á leið út úr húsi á gönguleið minni. Ég kannaðist vel við andlitið en ég kom því ekki fyrir mig. Ég setti andlitið í samhengi við eitthvað gott og gleðilegt. Fyrst datt mér í hug að þetta væri Íslendingur sem ég hefði átt ánægjuleg samskipti við þegar ég bjó og starfaði á Íslandi. Þegar ungi maðurinn leit upp, brosti hann og kallaði til mín, á dönsku, hvort ég þekkti hann ekki aftur.
„Manstu ekki eftir mér?“ spurði þessi lágvaxni og viðkunnanlegi ungi maður.
„Fyrirgefðu, nei, ég man ekki hver þú ert, en andlitið þekki ég.“
Svo sagði hann mér að hann héti Martin og hefði unnið á barnaheimili þar sem Davíð hefði verið og passað hann. Ég mundi þá vel eftir honum. Eftir að við höfðum óskað hvor öðrum alls hins besta og gengið hvor sína leið sótti á mig hálfgerð eftirsjá. Mér fannst ég hefði átt að segja honum að ég hefði alltaf kunnað ákaflega vel við hann þegar hann vann á barnaheimilinu. Því mér líkaði mjög vel við þennan dreng.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.