Espergærde. Að ybba gogg, 1000 sinnum.

Það er ekki of sem ég lendi í því að rífast við fólk, ybba gogg eins og Eiríkur Guðmundsson orðar það. Ég minnist á Eirík hér þar sem hann benti mér á fyrir nokkru að ég væri farinn að ybba gogg í tíma og ótíma. („Þú ert alltaf að ybba gogg þarna niður frá ólífulundinum, þú heldur að þú getir bara falið þig á bak við ólífutré og rifið kjaft. Þegar þú bjóst á Íslandi varstu stilltur eins og mús.“)

Athuganir Eiríks eru ekki réttar; ef rétt skal vera rétt þá ybba ég næstum aldrei gogg. Ég er of kurteis og tillitsamur. Það er einn af mínum stóru göllum. Í gærkvöldi á tónleikum Víkings Ólafsson á Louisianasafninu rakst ég fyrir tilviljun á íslenska konu sem ég kannast við. Ég þekki þessa konu ekki af neinu góðu og vildi helst af öllu láta eins og ég þekkti hana ekki, eða að minnsta kosti sýna að hún kæmi mér ekki við. En þá kom hún til mín, ekkert nema elskulegheitin og brosti sínu blíðasta. Eftir stutt kurteisileg orðaskipti byrjaði hún að rifja upp gamalt atvik sem fékk mig skyndilega til að glóa af reiði. Og það var þarna sem ég hefði átt að kveðja en í stað þess hóf ég upp þessa furðulegu tölu um heimskuna í heiminum. „Vissir þú að á hverju andartaki losar heimurinn sig við þúsundir heimskingja. Hefurðu nokkurn tíma velt því fyrir þér hvílík firn af heimsku eyðist á hverjum degi … “ og svona hélt ég áfram að ybba gogg. Núna sé ég eftir því.

Ég minntist á það í færslu gærdagsins að í dag, laugardaginn 29. september,  væri komið að færslu númer 1000 í Kaktusdagbókinni. Í hinu stóra samhengi er þetta lítið afrek en í mínum litla heimi finnst mér áfanginn nógu stór til að ég finn fyrir örlitlu stolti. Ég sit, eins og oft um helgar, við skrifborð inni í stofu (sama borð og Palli hefur setið mörg sumur og þýtt (Gamlingjann) og skrifað bækur (ævisögur Egils, Jóhönnu, Vigdísar)). Á borðinu stendur glóbus, eða hnattlíkan, og við mér blasir Gíneuflóinn. Píanóleikur Víkings Ólafssonar streymir út úr hátölurum stofunnar, Ich ruf zu dir Herr Jesu Christ. Það er viðeigandi að tónlist J.S. Bach leiki undir þessum skrifum,  undirleikur lífs míns hefur verið samin af J.S. Bach („uppsprettan sem aldrei þornar,“ eins og sagt er.} Þegar kvikmyndin verður gerð, byggð á minni stórkostlegu ævisögu, verður tónlist J.S. Bach notuð til að auka áhrif kvikmyndarinnar og kallast þá kvikmyndatónlist.

Ég lík þessari 1000 færslu með því að senda góðar kveðjur til allra þeirra sem lesa hér yfir öxlina á mér og með orðunum sem rúmenski kunningi minn lýkur öllum samtölum (skrifuðum og munnlegum) „god arbejdslyst“.

 

dagbók

Ein athugasemd við “Espergærde. Að ybba gogg, 1000 sinnum.

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.