Espergærde. Að fagna á hófsaman hátt

Það varð minna úr hátíðarhöldunum í gær vegna 1000 færslunnar á Kaktusinn en efni stóðu til. Ég fékk að vísu hamingjuóskir að utan en sjálfur fagnaði ég áfanganum á  hófsaman hátt.

Ég hafði fengið sent handrit að smásagnasafni Friðgeirs Einarssonar í gær (bók sem kemur væntanlega út á næstu vikum) og ætlaði nú bara aðeins að kíkja á kannski eina sögu þar sem ég er að lesa aðra bók um þessar mundir. En ég gleymdi mér yfir smásögum Friðgeirs svo ég kláraði næstum því að lesa nýju bókina hans í gær. Ég hafði verið þokkalega ánægður með fyrri bókina, sem kom út í fyrra ef ég man rétt, en þessi fannst mér enn betri og stundum fannst mér ég sjá svolítið af sjálfum Kjell Askildsen bregða fyrir og í mínum augum er það mikið hrós.

Ég tek stundum að mér að skrifa á annan vefmiðil og í gær sem var laugardagur notaði ég dálítinn tíma til að undirbúa mig, lesa og skrifa. Ég hafði rétt ýtt á send-takkann (takkinn sem gerir textann aðgengilegan öllum þeim sem hafa internettengingu) þegar mér barst tölvupóstur úr óvæntri átt þar sem ég fékk nokkrar skammir (skammir eru kannski of sterkt orð) fyrir greinina og ég er beðinn að hnika til nokkrum orðum að minnsta kosti. Ég varð fúslega við beiðninni (enda tillitssamur og kurteis maður eins og fram hefur komið) en hugsaði rólegur og stilltur af hverju í ósköpunum ég væri að nota tíma minn í þetta þegar uppskeran væri sjaldan annað en einhver furðulegur pirringur.

Nú er morgun. Það er kyrrt yfir. Bleiku blómin fyrir utan gluggann minn vagga létt í vindinum og ég hlakka til dagsins. Sunnudagar. Ég kann vel við sunnudaga.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.