Espergærde. Bono, Potter og menningarritstjórinn

Um helgina fékk ég eiginlega uppreisn æru. Það er kannski ofsagt, uppreisn æru eru stór orð, en ég varð bara glaður í hausnum. Mér var bent á nýja hlaðvarpsþáttaröð sem ber titilinn Pottersen. Þar hyggjast systkinin Emil Hjörvar Pet­er­sen og Bryn­dís Freyja Pet­er­sen ræða um Harry Potter-bækurnar.  Ég hlustaði á fyrsta þáttinn og þótti hin ágætasta skemmtun. Mér til mikillar gleði hældu þau þýðingu Helgu Haraldsdóttur í hástert. Það þótti mér gott. Ég hafði sérlega mikla ánægju af að vinna með hinni góðhjörtuðu og vönduðu konu Helgu; það er leitun að jafn samviskusömum og samvinnuþýðum þýðanda. Það vita þó fáir að bak við þýðinguna á Potter-bókunum eru fleiri þýðendur þótt Helga eigi algjörlega aðalheiðurinn. Jón Hallur Stefánsson er einn af þýðendunum og á drjúgan þátt í að gera textann lifandi og góðan. Jón Hallur er algjört garantí fyrir góðum texta; það eru fáir Íslendingar sem skrifa jafn safaríkan og líflegan texta og hann.

Eins þótti mér gott að heyra að þau systkini, Emil og Bryndís, voru svo ánægð með þá ákvörðun Bjarts-forlagsins að þýða ekki nöfnin á persónum og stöðum (það er þó gert á stöku stað þegar annað er næstum ekki hægt (t.d. viðurnefni)). Ég man þegar fyrsta bókin í bókaflokknum um Harry Potter kom út fékk ég símtal frá þáverandi menningarritstjóra DV, Silju Aðalsteinsdóttur, sem skammaði mig rækilega fyrir margt í þýðingunni á Harry Potter og þá sérstaklega að ekki væri gengið lengra í að íslenska bókina (nöfn og staði). Lengi eftir þetta samtal var ég miður mín yfir útgáfunni og fannst ég hafa brugðist með þeim ákvörðunum um þýðinguna sem ég var með í að taka. Silja var valdamikil í íslenskri bókaútgáfu á þessum árum enda eldklár og ég hálfgerður byrjandi og því þótti mér þetta sérlega óþægilegt. Skyggði samtalið lengi á eftir á þá miklu gleði ég hafði af að gefa loksins út almennilega metsölubók eftir nokkur strembin ár í forlagsbransanum. Það var því mjög uppörvandi að  heyra að þessir miklu Potter-aðdáendur voru ánægðir með þýðinguna.

Tónleikavikunni er lokið. Þrír tónleikar á einni viku og sá síðasti í gærkvöldi með U2, írsku hljómsveitinni með söngvarann Bono í forgrunni. U2 er með mikla sýningu í farteskinu, ljós og myndir á stórum skermi og læti. Það var gaman að vera á þessum tónleikum og verða vitni að öllum þessum fyrirgangi.

Ég verð þó að viðurkenna að ég var ekki hrifinn af U2 sem hljómsveit á þessum tónleikum. Tónlistin segir mér ekki neitt. Og Bono, það er nú meiri dúkurinn. Ég hef verið á mörgum tónleikum um ævina og oftast nær flytjandinn eða flytjendurnir að mynda tengsl við áhorfendur með einhverjum hætti; litlar sögur um tónlistina, lögin, flytjendurna eða eitthvað … en Bono hann er afleitur sögumaður. Og það sem kemur út úr munninum á honum er svo fyrirsjáanlegt … vinstri-populismi af verstu gerð. Eiginlega neyðarlegt að leggja eyrun við þennan innantóma slagorðaflaum.  En þegar allt er tekið saman skemmti ég mér samt.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.