Espergærde. Að dafna við undirleik eða vaxa í þögn náttúrunnar

Í gær í einsemd minni hlustaði ég á samtalsþátt á RÚV sem heitir Hátalarinn. Gestur umsjónarmannsins, Péturs Grétarssonar, var píanóleikarinn Víkingur Ólafsson sem fjallaði um nýútkomna plötu sína þar sem hann flytur tónlist J.S. Bach. Ég hafði ímyndað mér að ég gæti haldið áfram að vinna á meðan útvarpsþátturinn hljómaði í bakgrunninum. En svo er ekki í mínu vinnulífi. Ég get ekki hlustað á talað mál og gert eitthvað annað. Það var ekki um annað að ræða, ef ég vildi hlusta á þáttinn, en að standa upp og ganga um gólf á meðan þeir félagar Pétur og Víkingur ræddu saman um píanóleik og Bach. Þetta var útvarpsþáttur að mínu skapi, mjög áhugavert spjall og vel þess virði að fórna virkum vinnutíma til að hlusta á þennan þátt (sumir geta kannski unnið á meðan félagarnir spjalla saman inni í útvarpssal og þá er það tvöföld ánægja.)

Ég hef komst að því að ég vex og dafna betur við undirleik tónlistar. Það eru engar vísindalegar rannsóknir sem styðja þessa staðhæfingu. Ég finn það bara. En ég las fyrir nokkru rannsókn á vexti vínberja hjá vínbændum sem leika tónlist Mozart (það var bara Mozart-músik í boði í þessari rannsókn) fyrir vínberin sín. Niðurstaðan sýnir að bændurnir fá stærri vínber, sykurríkari og með fleiri lyktaragnir en bændur sem láta vínber sín vaxa í þögn náttúrunnar.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.