Espergærde. Smurolía í hnetunum

Ég fékk það svo sterklega á tilfinninguna í morgun að það væru hnetur og möndlur, og olían úr þeim, sem mundi gera gæfumuninn og tók því upp á því að skreyta hafragrautinn minn með einskonar hnetublöndu. Ekki veit ég hvort þetta er örvænting, þetta jaðrar kannski við örvæntingu, en mér fannst bara allt í einu líklegt að einmitt þessar olíur mundu smyrja ökklann á mér og koma honum aftur í lag. Ég er orðinn hálf þreyttur á að haltra og geta ekki gert neitt af viti. Ég er búinn að missa sæti mitt í fótboltaliðinu og er örugglega orðinn hundlélegur í tennis.

Annars ætla ég ekki að fara að væla, eða fylla dagbókina með einhverri sjálfsvorkunn. Það hefur ekki verið minn stíll, en ég minnist á þetta hér því  ég las í gær ljóðabók sem mér barst og pirraði mig óskaplega. Mér fannst síðurnar, hver af annarri (þær voru sem betur fer ekki svo margar ), vera fullar af einhverjum aumingja-ég-leiðindum. Ég henti því bókinni frá mér (það gerðist óforvarendis) svo hún lenti með skelli á veggnum við hliðina á glugganum og svo bölvaði ég í hljóði (nei, ég segi bara svona, ég bölva aldrei hvorki hátt né í hljóði). Ég furðaði mig bara á því af hverju þessu ljóðskáldi hefur verið hampað í öll þessi ár.

Síðustu daga hef ég lesið þrjár bækur með smásögum, ég veit ekki hvað það á að þýða. Ég las nýja bók Friðgeirs Einarssonar og þótti hún fín, svo las ég enn og aftur Kjell Askildsen, (ég var allt í einu kominn með bókina í hendurnar og byrjaði að lesa og gat ekki stoppað) og svo í gær langaði mig allt í einu að lesa smásögur Halldórs Laxness. Það var sagan af Nebúkadnesari sem fór allt í einu að sækja á mig svo ég varð einginlega að rifja hana upp.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.