Espergærde. Vörn á opinberum vettvangi

Ég hef verið að lesa þýsku skáldkonuna –  eða á ég frekar að segja austur-þýsku skáldkonuna því það að bæta austur fyrir framan landið hennar lýsir henni betur –  Christu Wolf, dagbók hennar sem hún skrifaði einu sinni á ári, þann 27. september ár hvert í meira en 40 ár. Ég næ ekki sérlega sterku sambandi við hana, ég tengi mig ekki við þetta þunglamalega austur-Evrópu andrúmsloft, það er einhver ægilegur þungi yfir öllu, allt er þunglamalegt og það á ekki við mína eðlis-léttu lund.

Ég skrifa ekki eins dagbók og Christa, það gæti ég ekki. Hún greinir í smáatriðum frá öllum sínum þungu og ábyrgðarfullu hugsunum um samfélagsþróun og um hlutverk mannanna í samfélagsuppbyggingunni. Hún kemur úr austri, þaðan kem ég ekki.

Ég hef aðeins furðað mig á, héðan úr fjarskanum, af hverju það er allt í einu orðin lenska að eiginmenn kvenna sem telja sig mátt þola óréttlæti sjái um hina opinberu vörn þeirra. Skrifa varnarræður í dagblöð og koma í viðtöl fyrir hönd hinnar særðu konu. Auðvitað verja eiginmenn konur sínar, það er sjálfsagt og væntanlega gagnkvæmt, en ég hef ekki fyrr tekið eftir  því eða séð það gert á opinberum vettvangi. Ég hef fylgst útundan mér með PR-manni Íslands, Einari Bárðarsyni, ganga hart fram til að verja konu sína sem var rekin frá einhverju orkufyrirtæki fyrir einhverjar sakir sem mér eru ókunnar og núna tekur Gunnar Smári fram sveðjur sínar og hnífa og slátrar þeim sem hann telur vera óréttláta gagnvart konu sinni ljósmyndaranum, sem hefur tekið fallegar myndir fyrir verkalýðsfélagið Eflingu. Ég held að kona mín mundi vilja sjá um sína opinberu vörn ef hún væri beitt órétti. Annars veit ég ekki hvað ég er að spekúlera í þessu, mér getur verið fullkomlega sama, ég er bara eilítið hissa því mér þykir þetta svolítið furðulegt.

Annars er enn morgunn hér í Danmörku, þótt ég hafi keyrt Davíð til golfvallarins þar sem hann spilar golf með vini sínum og sótt hann aftur (það er langt til golfvallarins) og ekið (í þessum erindagjörðum) um sveitir Norður-Sjálands og dáðst að laufum trjánna sem óðum eru að taka á sig rauða og gula listi haustsins. Ég dáist líka að grænum ökrunum sem bylgjast í hæðum og lautum svo langt sem augað eygir. Samt er enn morgun.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.