Espergræde. „Þetta er ég, Snæi.“

Við frú Bovary erum kannski á sama báti, þetta dettur mér bara skyndilega í hug þegar orð Flauberts um Bovary bergmála í höfðinu á mér eins og ég man þau. „Hún leitaði hughrifa, ekki landslags.“ Kannski er eina ástæða þess að heimurinn er góður staður að vera á sú að enn er til fólk sem fer á fætur á morgnana og gerir eitthvað gott þótt það sé eiginlega ekki alveg í stuði til þess.

Yfir hafragrautnum mínum í morgun mundi ég allt í einu að í nótt hafði ég vaknað við frekar óþægilegan draum. Mamma hafði tekið að sér að sjá um hlaðborðssamkomu fyrir fjölda fólks (kannski bara fjölskylduna mína), og hún gerði það á sinn hátt sem er alltaf fyndið, en svo kom ég að hlaðborðinu þar sem hún stóð og sýslaði með eitthvað grænmeti. Hún leit upp og brosti þegar hún sá mig, næstum hló, og svo sagði hún:
„Ert þú ekki fasteignasalinn?“
„Ha?“ sagði ég undrandi. „Þetta er ég, Snæi.“
Og þá brá henni. „Ó, ert þetta þú?“

Ég kann vel við fólk sem endar setningarnar á að segja „… ,hjartað mitt.“
Ég kann vel við fólk sem leggur sig fram um að segja satt.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.