Í gær var dagurinn sem:
1) ég keypti ljóðabók Hiromi Ito Vildgræs på flodlejet.
2) ég sá viðtal við Håkan Nesser á myndbandi. Það var stutt, um það bil fimm mínútur. En ansi gott og skemmtilegt.
3) bandaríski rapparinn Kanye West heimsótti forseta Bandaríkjanna. Það fór vel á með þessum tveimur andans risum. Hæfir kjafti skel, var einu sinni sagt.
4) ég byrjaði að lesa bók sem ég fékk senda í gær, sem ég man bar ekki hvað heitir, en er eftir íslenskan rithöfund og er væntanleg á næstu dögum í bókabúðir. Mér leist vel á byrjunina. (Tékka á því hvað bókin heitir þegar ég kem heim).
5) ég sat á fjögurra tíma löngum fundi með þrem bankamönnum. Mér þótti við hæfi að ég fengi mér bjór eftir fundinn.
6) ég var svo leiður á sjálfum mér og verkefnum mínum (ég var eiginlega ekki með sjálfum mér) að ég leyfði mér að skrifa vælubréf til félaga míns og bera mig aumlega. Hann sagði mér að það væri í lagi að væla hann þekkti tilfinninguna sem ég lýsti.
7) íslenska fótboltaliðið gerði jafntefli við franska landsliðið í fótbolta 2-2. Ég var ekki í liðinu, hvorki því franska né því íslenska.
8) ég fékk sendar fjórar bækur frá mínu gamla forlagi sem ég á ekki lengur. (sjá mynd)
9) ég kom hjólinu mínu í lag og hjólaði í fyrsta skipti til vinnu í meira en ár.
10) ég borðaði blómkál í hádeginu
11) ég las handrit fyrir gamlan félaga úr danska forlagsbransanum. Nú þarf ég að segja honum hvað mér fannst og það verður ekki alveg auðvelt. En nú dríf ég í því.
Á morgun flýg ég til Íslands á leið minni til New York. Staldra við í nokkra daga á Íslandi. Ég vara hér með þá sem vilja ekki hitta mig. Ég verð mest í vesturbæ Reykjavíkur.