New York. Staðan á Manhattan

Ég er lentur í Bandaríkjunum. Hef brunað – að bruna er víst rétt orð fyrir þessa harðferð – eftir vegunum í leigubíl frá flugvellinum og til Manhattan og ég hef náð þeim áfanga að vera kominn upp í íbúðina á 57 stræti (tók lyftuna upp á 22. hæð), búinn að kaupa takeaway pizzu hjá pizzusalanum á næsta götuhorni (tók lyftuna sömu leið niður), búinn að sofa eftir að hafa tekið lyftuna upp og borðað pizzuna á 22  hæð, háttað og sofnað og núna er ég vaknaður, búinn að fara í morgunsturtu þótt klukkan hér sé víst ekki nema hálfsex. Ég er auðvitað tímavilltur eftir sex tíma flugferð í vesturátt.

Mér varð allt í einu hugsað til Tomasar Tranströmer í gær þar sem ég sat í flugstöðvarbyggingu Leifs heppna og uppgötvaði að ég hafði gleymt – eða gleymt er ekki rétt orð – að ég ætlaði að kaupa ljóðasafn hans í þýðingu Njarðar P. Njarðvík á ferðum mínum um götur Reykjavíkur. Mér tókst aldrei að koma í námunda við bókaverslun. Eini bóksölustaðurinn sem ég kom á var bóksalan á flugvellinum. Þar endurtók ég mína fyrri iðju að falsa metsölulista búðarinnar, færa bókina Hinn grunaði herra X. eftir Keigo Higashino á þann stað sem bókinni sæmir á sölulistum landsins. Bókin ætti auðvitað að vera númer eitt á flugvallarlistanum en ég ákvað að setja bókina númer tvö.

Ég kláraði að lesa bók eftir ungan danskan rithöfund í fluginu. Bók sem hún bað mig að lesa fyrir sig til að gefa álit mitt á bókinni. Ég gat skrifað til hennar í gær með góðri samvisku að hún gæti verið stolt yfir bókinni. Þetta er fyrsta bók hennar og prýðilega vel gerð.

ps.  Útvarp Manhattan kom í huga mér þegar ég skrifaði borgarheitið. Það var fínn útvarpsþáttur hjá Hallgrími. Þessi gamli útvarpsþáttur minnir mig á annan útvarpsþátt sem var fluttur á sama tímabili. Vasaleikhúsið hans Þorvaldar Þorsteinssonar. Það var líka ansi gott útvarpsefni.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.