New York. Enn kominn tími á þyrluflug

Þótt ég sé fullkomlega tímaruglaður – ég sofnaði í gær gersamlega úrvinda klukkan 21:00 – veit ég samt hvað er ég á tímadagskrá dagsins. Davíð fékk skilaboð í gær um að vinkona hans og bekkjarsystir væri stödd hér í New York og vildi bjóða honum með í þyrluferð yfir borgina. Unga daman, vinkona Davíðs, er í fylgd afa og ömmu sem eru ansi efnuð og þyrlutúr yfir New York er ekki efnahagsleg ákvörðun fyrir þau. Við eigum að vera mætt niður í þyrluskýlið klukkan hálf tíu.

Ég á líka stefnumót sem ég hlakka satt að segja til. Ungi rithöfundurinn Sverrir Norland er búsettur í Brooklyn og í hádeginu – að lokinni þyrluflugferð Davíðs – hittum við hann á vel völdu hippsterkaffihúsi. Ég held að ég hafi aldrei séð Sverri í lifandi lífi, ég þekki hann bara af myndum. Kynni okkar hófust fyrir skömmu þegar ég hafði samband við hann vegna verkefnis sem ég vinn að. Síðan höfum verið í sambandi sem nú nær hápunkti sínum í hádegisstefnumóti á hipsterkaffihúsi í Brooklyn.

Ef ég á að horfa enn lengra fram í tímann eigum við að vera mætt klukkan fimm á einhvern stað sem Sus hefur fundið og neitar að gefa upp hvað er eða veita neinar upplýsingar til okkur hinna. Við eigum bara að mæta klukkan fimm á 51 stræti og sjá hvað gerist.

Þegar þeirri athöfn er lokið, um kvöld,  eru tónleikar. Ég vona að ég geti haldið mér vakandi. Ég var gersamlega búinn á því eldsnemma í gærkvöldi.

ps fann tvær bókabúðir á Manhattan í gær og keypti mér meðal annars Brooklyn eftir Colm Tobin (bækur hans minna mig alltaf á Helga Gríms þann öndvegismann).

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.