New York. Huggun knattspyrnumannsins

Á leið minni til New York, það er að segja í flugvél Icelandair, horfði ég með öðru auganu á þáttaröð sem Guðmundur Benediktsson, fótboltasérfræðingur gerði til að varpa ljósi á söguna bak við fótboltaævintýri landsliðs Íslands. Ég sá tvo af sjónvarpsþáttunum, sem sennilega voru fjórir, og í þeim var talað við helstu kappa landsliðsins.

Í heildina séð finnst mér fótboltamönnunum margt betur til lista lagt en að segja frá á athyglisverðan hátt. Frásagnir þeirra um þetta mikla fótboltaævintýri náðu aldrei neinum hæðum, urðu ekki skemmtilegar, líflegar eða áhugaverðar. Því miður. En eitt brot úr samtali við Emil Hallfreðsson, miðjumanninn sem spilar á Ítalíu, þótti mér forvitnilegt. Hann lýsti því að morguninn fyrir einn af mikilvægari leikjum knattspyrnulandsliðsins hafði hann vaknað sérlega illa upplagður. Hann gat ekki hugsað sér að taka þátt í morgunæfingu liðsins svo hann lét sig hverfa. Ég veit ekki hvort Emil er sérlega trúaður maður eða hvort hann er alin upp við mikla trúrækt, en í öngum sínum og vandræðum hringdi hann í prest og spurði hann hvort hann gæti sest niður í kirkju í nágrenninu og beðið með honum, talað við Guð, svona í hálftíma. Ekki kom fram hvort Emil hefði liðið betur eftir bænina, enda það aukaatriði í frásögninni.

Þessi hluti þáttarins hefur setið í mér síðan í fluginu á þriðjudag. Og sennilega er þetta rétt hjá Emil samtal við Guð gæti veri leið hinna einmana og leiðu, hinna sorgmæddu og þjáðu. Kannski er í samtalinu við Guð að finna þá huggun sem svo mjög er leitað eftir.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.