New York. Staðan á Manhattan II

Það hefur rignt í nótt í borginni sem aldrei sefur eins og New York var alltaf kölluð í gamla daga. Ég svaf hins vegar meðan borgin vakti.

Staðan í gær.
1) Morgunmatur á Brooklyn Diner. Nokkur vonbrigði. Hafragrauturinn sem ég pantaði dýrum dómum var miklu slappari en fíni hipster-hafragrauturinn í París og nær ekki að hafa tærnar sem minn eigin hafragrautur hefur hælana (þetta er gamalt orðatiltæki).

2) Inn í hina voldugu Apple-búð þar sem Sus vantar nýtt gler á símann sinn. Vinir hennar hjá Apple (sem hún æsir sig mjög yfir) sögðu henni að glerið væri uppselt í gervallri New York-sýslu sem vakti enga sérstaka hrifningu Apple-skeptíkerins í fjölskyldunni.

3) Ganga inn í Miðgarð eða Central Park eins og innfæddir kalla garðinn. Þar var líf og fjör enda skein sólin á þessum fínu haustdögum. Uppáhaldið mitt í garðinum eru íkornarnir.

4) Gengið upp með austurhlið garðsins í átt til Metropolitan museum þar sem mjög skemmtileg sýning á verkum hollenskra málara (1600-1900) hangir uppi.

5) Seinn hádegismatur í byggingunni hans Ólafs Jóhanns, Time Warner byggingin við Colombus Cirkle. Þar er ágætur staður sem heitir Bluebird þar sem ég fékk Fish and Chips. Bara góður staður og frábært útsýn yfir Central Park.

6) Inn í Amazon bókabúðina í byggingunni hans Ólafs Jóhanns. Þetta er í rauninni mjög fín bókabúð. Það skyldi þó aldrei verða að Amazon bjargi götubókabúðunum. Búðin kom  mér mjög á óvart. Ég keypti til dæmis bók sem ég hef enga þörf á og uppgötvaði það þegar ég kom heim sem er merki um góða bókabúð sem tekst að gera bækur girnilegar.

6) Heim á ný. Pása. Las Colm Toibin Brooklyn (frábær bók) á meðan hinir fjölskyldumeðlimir vesenuðust við eitthvað í símum og með bækur og sökktu sér niður í M&M’s poka (nú borða ég þessar viðurstyggilegu kúlur í morgunmat).

7) Gestir! Hingað komu í óvænta heimsókn fólk sem við könnumst við frá Espergærde og átti erindi til New York.

8) Út að borða á NOBU veitingastaðnum sem er í eigu Robert deNiro. Við höfum borðað þar áður en í þetta sinn var stemmningin ekki eins góð og oft. En maturinn var í fyrsta flokki.

9) Tónleikar í Carnegie Hall. Skemmtilegur tónleikasalur en í þetta sinn voru tónleikarnir í slappari kantinum. Einhvern veginn tókst tónflytjendunum að gera þessa tónleika að verstu sápuóperu. Það var allt of mikið talað!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.