New York. „Heðstur“

Á göngu minni um Soho-hverfið hér í New York mætti ég óvænt tveimur Íslendingum, Gunna Þorra (eða Gunna litla eins og við kölluðum hann hjá Bjarti fyrir mörgum árum þegar hann vann  hjá okkur) og hina góðu konu hans Ásu Hjörleifsdóttur. Mér fannst það bara svo óraunverulegt að koma gangandi á móti þessum tveimur fallegu einstaklingum frá Íslandi á suðurhluta Manhattan um hábjartan dag.

Helsta afrek mitt í gær var að kaupa fimm bækur. Ég sem ætlaði ekki að kaupa fleiri bækur í ferðinni. Ég nældi mér meðal annars í nýja bók David Sedaris, sem ég hitti einmitt hérna í New York borg fyrir nokkrum árum. (Ég var útgefandi hans í Danmörku). Davíð og Númi voru með okkur á þessum fundi og Sedaris vildi endilega fá Davíð til að kenna sér að segja „hestur“ á dönsku. „Heðst,“ sagði Davíð af því hann er pínulítið smámæltur og Sedaris endurtók „heðst“. Það þótti mér fyndið og alltaf þegar ég sé hest verður mér hugsað til David Sedaris.

ps eins og sjá má hef ég ekki mikinn tíma til að skrifa dagbók hér í New York. Þetta eru þriggja mínútu skrif. Þú manst það, Snæi minn, ef þú lest þetta einhvern tíma aftur, að New York dagbókin er bara unnin á þremur mínútum og ekki verða fúll.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.