New York. „Sjáðu, hvað ég er góður að sópa.“

Ég á í nokkrum vandræðum með tölvuna mína, harði diskurinn er svo fullur af alls konar skjölum að eiginlega rúmast ekki meira á tölvunni. Þetta tilkynnir tölvan mér með jöfnu millibili; „you are running out of spice young boy“. Þegar ég settist í morgun við tölvuna neyddist ég því til að loka skjölum sem voru opin á skjáborðinu; til þess að geta haldið áfram að vinna. Í þessu fikti mínu í tölvunni rakst ég á forrit sem ég hafði skrifað í flýti fyrir nokkrum vikum. Ég hafði rekist á auglýsingu um tölvuforritunarsamkeppni á vegum Sameinuðu þjóðanna. Verðlaunin voru vegleg og ég ákvað að taka þátt í keppninni mér til skemmtunar þótt skilafresturinn væri að renna út.

Ég tók þátt í annarri svona keppni fyrr á árinu á vegum einhverra samtaka og vann; fyrsta sæti. Verðlaunin voru ferð til Laos í Nígeríu og kvöldverður með meðlimum Boko Haram (grín) en ég neitaði að veita þeim viðtöku  (eins og Sartre neitaði að taka við Nóbelsverðlaununum á sínum tíma). Það voru tvær ástæður fyrir því að ég vildi ekki þiggja verðlaunin. Í frysta lagi langaði mig alls ekki að heimsækja Laos. Ég hafði gegnið eftir borginni með hjálp Google Street View og sá að þarna hafði ég ekkert að gera. Hin ástæðan var öllu neyðarlegri. Samkeppnin var auglýst sem forritunarkeppni barna. Aldurstakmark var 13 ár og þar sem ég er áhugamaður og hálfgerður byrjandi í forritunarkúnstinni leit ég á mig sem forritunarbarn. En ég gat ekki mætt í allri minni hæð og með minn háa aldur og hrifsað verðlaun sem ætluð voru börnum.

En þátttaka (þrjú t, yo!) keppni Sameinuðu þjóðanna var ekki bundin neinum skilyrðum um aldur. Maður átti bara að forrita eitthvað sem gæti gagnast hinum sameinuðu þjóðum til að bæta lífið á jörðinni. Eins og ég sagði hafði ég ekki langan tíma til að leysa verkefnið og núna í morgun þegar ég var að taka til í tölvunni rakst ég á lausnina sem ég hafði sent inn. Þetta er nokkuð langt forrit og strax í  fyrsta hluta rakst ég á tvær afgerandi villur. Ég varð argur út í sjálfan mig og reyndi að telja mér trú um að dómnefndin muni sjá í gegnum fingur sér því hugmyndin og önnur útfærsla er allþokkaleg.

Ég flýg heim í dag, millilendi á Íslandi og ef einhver á leið um flugvöllinn í fyrramálið má sá hinn sami taka með sér ljóðasafn Tomasar Tranströmer. Við getum mælt okkur mót við veitingasölu Joe’s. Ég borga fullt verð og bæti við sendingarkostnaði sé þess óskað.

ps kíkti aftur á forritið og fann þriðju „viluna“ eins og maður segir ef maður vinnur í forlagsbransanum.

pps. Mig dreymdi Jóhann Pál Valdimarsson, uppgjafa útgefandann, í nótt. Hann var að sópa götuna fyrir utan forlagið sitt á Bræðraborgarstíg. Ég spurði hvað hann væri  að stússa þá sagðist hann vera orðinn húsvörður. Það fannst honum gott starf. Svo benti hann stoltur á gangastéttina og sagði hreykinn: „Sjáðu, hvað ég er góður að sópa.“

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.