Í Kystbanen: Að hagræða sannleikanum

Ég flaug frá New York í nótt og millilenti í Keflavík í morgun. Í flughöfninni í Keflavík sat ég nógu lengi til að geta hagrætt metsölulistanum enn einu sinni. Glæpasagan Hinn grunaði Hr. X er aftur komin í annað sæti á flugvallarlistanum, þar sem hún á heima. Mér tókst meira að segja að sannfæra konu sem leitaði að lesefni í bókabúðinni fyrir flugið að kaupa bókina (þetta er í annað sinn sem mér tekst að selja bókina á flugvellinum, yo!).

IMG_2763
Hinn grunaði herra X. eftir Keigo Higashino lítur út fyrir að vera í öðru sæti metsölulista flugvallarbókabúðarinnar í Keflavík. Sannleikurinn er annar, en ég staldraði við á Íslandi í rúman klukkutíma sem var nóg til að mér tókst að hagræða sannleikanum.  Ég veit ekki hvort einhver þakkar mér það, ég held ekki. 

Ég hafði vonað að einhver ætti leið um flughöfnina og tæki ljóðasafn Tranströmer með sér. Ég beið við ávaxtasaftsölu Joe’s eins lengi og ég gat en enginn kom með ljóðasafnið. Ég gekk því niðurlútur út í bókabúðina sem var mannauð og dapurleg. Stæður af glæpasögum lágu á borðum en á gólfinu á einskonar vörubretti lá gul bók með grænni áletrun. Ég þekkti bókina. Sextíu kíló af sólskini. eftir Hallgrím Helgason. Ég stóðst ekki freistinguna og keypti bókina. Stundum hef ég á tilfinningunni að ég sé eini Íslendingurinn sem kaupir bækur af fúsum og frjálsum vilja og til eigin nota. Ég tók bókina með að peningakassanum eða afgreiðsluborðinu þar sem maður getur borgað fyrir vörur í bókabúðinni. Þar stóðu tvær glaðar, ungar stúlkur sem voru fúsar að selja mér skáldverkið. Ég hóf strax að lesa bókina eftir að hafa fengið hana afhenta gegn peningaborgun. Ég kom mér fyrir í einu horni bókabúðarinnar – þar sem ég var ekki í vegi fyrir neinum ef einhver álpaðist eða jafnvel slysaðist inn í þetta mikla bókamusteri – og fletti upp á fyrstu síðu sögunnar. Ef marka má fyrstu þrjá bókakaflana, þá sem mér tókst að lesa áður en ég var kallaður af stað út í flugvél, held ég að Hallgrímur hafi ritað ansi góða bók. Meðferð hans á tungumálinu er að minnsta kosti aðdáunarverð; hann er frumlegur, uppáfinningarsamur og öruggur. Orðin leika í höndunum á honum.

Þótt byrjunin á bók Hallgríms hafi heillað mig held ég áfram að lesa bók  sem ég byrjaði á upp í rúmi á 57. stræti í New York borg. Brooklyn eftir Colm Tóibín les ég áfram og ég verð æ ánægðari með bókina. Svakalega hefur Colm léttleikandi stíl. Frásögnin er látlaus en samt svo spennandi og full af innlifun. Ef ég væri útgefandi á Íslandi mundi ég gefa þessa bók út.

ps. Hitti Dag Kára enn einu sinni þegar ég staldra við á Íslandi. Það er ég ánægður með, ég kann vel við Dag Kára.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.