Ég er aftur sestur á minn stað á skrifstofuna við lestarteinana og einmitt núna rennur lestin frá Kaupmannahöfn í hlaðið. Hún er á leið til Helsingør. Ég er ekki á leið til Helsingør í dag heldur á mánudaginn.
Í gær fékk ég nefnilega SMS frá sjúkraþjálfara sem hefur verið að reyna að hjálpa mér með að fá ökklann í lag. Ég er haltur og hann er með stofu í Helsingør. Það hefur alls ekki gengið nógu vel hjá mínum ágæta sjúkraþjálfara að finna lækningu og nú sendi hann mér tilboð. Hann hefur kallað saman þrjá sérfræðinga sem vilja kíkja á mig á mánudaginn. Það á vel við mig að fá svona sérfræðingahóp til að skoða á mér ökklann. Einn þessara sérfræðinga sér um leikmenn fótboltaliðsins í Helsingør, það finnst mér líka gott.
Ég reyndi í gær að sökkva mér ofan í sjónvarpsþáttaröð. Kom mér vel fyrir í mjúka og stóra hægindastólnum og setti heyrnartól yfir eyrun og byrjaði að horfa. Mér tekst bara ekki að gleyma mér yfir slíku sjónvarpsefni, ég er ólæs á sjónvarpsþáttaraðir. Í gær kveikti ég á Sharp Objects, þáttaröð byggð á samnefndri sögu Gillian Flynn og er lofuð í hástert í mín eyru. Ég hafði ekki meiri þolinmæði en svo að ég slökkti eftir 15 mínútur. Svona er nú mitt góða líf.
ps. Stundum er það svo að ég get skrifað endalaust, allt streymir fram endalaust, rennur fram frá huganum og í gegnum fingur mér niður á lyklaborðið. Svo er það aðra daga sem ég kreisti orðin út úr fingrum mér.