Espergerde. Stefnumót

Fimmtudagur og Chet Baker syngur fyrir skrifstofumanninn mig á meðan ég undirbý mig fyrir átök dagsins. Átök er kannski ekki rétta orðið yfir þetta dund sem maður stundar dag eftir dag. Ég á að vísu erindi, tvenn erindi, inni í Kaupmannahöfn í dag. Í fyrsta lagi hef ég mælt mér mót við unga konu sem hefur stofnað lítið bókaforlag, litla bókabúð og lítinn pop-up bar inni í Nørrebro. Ég veit ekki hvaða erindi hún á við mig þessi unga kona en hún bað mig um að hitta sig og ég varð við þeirri ósk þar sem ég var hvort eð er á leið inn í höfuðstaðinn í dag.

Ég á nefnilega annað stefnumót við tvo af mínum ágætu, fyrrum þýðendum. Við ætlum að borða saman á veitingahúsi í stórborginni. Það er fínt að hitta þessar tvær góðu konur en ég finn að ég er á hægri siglingu burt úr þessu forlagsstússi, burt frá bókaútgáfu og þeim litla heimi.

ps. sá að á nýjum sölulista Eymundsson hefur bók Hallgríms Helgasonar, Sextíu kíló af sólskini,  skriðið upp á topp. Ekki sést skugginn af öðrum svokölluðum fagurbókmenntum á listanum.

pps. Ég var að opna hurðina að lestarstöðinni þar sem skrifstofan mín er í morgun. Ég var eitthvað stirðfingraður og átti erfitt með að fá lyklana í skráargatið. Þarna stóð ég og bisaði við að opna þegar að mér vindur sér maður sem ég kannast ekki við. Hann var klæddur í síðan, grænan  frakka yfir æfingaföt; stuttbuxur og gula nylontreyju. Á höfðinu hafði hann hvítt frottehárband. Það var eins og hann hefði beðið eftir mér fyrir utan skrifstofuna.
„Fyrirgefðu,“ sagði hann og gekk nær mér.
„Já,“ svaraði ég.
„Átt þú heima hér?“
„Heima? Ja, nei, ég á ekki heima hér. Þetta er skrifstofa.“
„Skrifstofan þín?“ spurði maðurinn og færði sig  enn nær og nú var fjarlægðin á milli okkar óþægilega lítil.
Ég vék mér aðeins undan manninum og svarði hálftreglega að þetta væri skrifstofan mín.
„Ég er ökukennari og mig vantar skrifstofuaðstöðu.“
„Já …“
„Er eitthvað laust hjá þér?“
„Nei,“ sagði ég þótt það væri ekki alveg satt. Það er vel pláss fyrir fleiri en ég nennti bara ekki að deila skrifstofu með þessum nærgöngula, frakkaklædda íþróttaálfi.
„Ertu viss um það?“
Spurningin kom flatt upp á mig. Og satt að segja pirraði maðurinn mig ósegjanlega. „Er ég viss um það … Hvað meinarðu? Já, ég er viss um að það. Það er ekki pláss fyrir þig hér.“
Mér tókst loks að opna lásinn, opnaði dyrnar og bjóst til að kveðja manninn. En hann lifnaði allur við þegar hann sá að ég hafði opnað dyrnar að skrifstofurýminu og gerði sig líklegan til að ganga inn. Ég var ekki nógu fljótur að hindra manninn svo allt í einu stóð hann inni á miðju gólfi.
„Vá, þetta er flott hérna. Hver notar þetta rými hér … þetta væri alveg fullkomið fyrir mig. Það fer ekkert fyrir mér. ég gæti vel komið mér hér fyrir og maður tæki varla eftir því að nýr maður væri kominn inn.“ Hann  skimaði í kringum sig skælbrosandi eins og honum hefði verið  hleypt inn í himnaríki. Það hefði verið óverðskuldað.

Það tók mig dágóða stund að koma manninum út. Það var ekki fyrr en ég hafði gefið honum símanúmerið mitt og ég fengið hans (svo ég gæti hringt í hann ef eitthvað losnaði, right!) að hann kom sér út.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.